145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[14:54]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið.

Ég velti fyrir mér hvort við getum þá sammælst um að lögð verði fram undir einhverju flaggi breytingartillaga við 2. umr. fjárlaga, eða 3. ef ekki vill betur, sem tryggir að Alþingi sé einnig styrkt en ekki bara framkvæmdarvaldið hvað þetta varðar, því að það er sannarlega um að ræða mjög viðkvæmt jafnvægi milli framkvæmdarvaldsins og síðan fjárveitingavaldsins við alla fjárlagagerðina og síðan úrvinnslu og afgreiðslu fjárlaga frá Alþingi.

Fólgin er í því ákveðin hætta ef verulegt ójafnvægi verður hér á að því er varðar aðgang að sérfræðiþekkingu og þeim björgum sem nauðsynlegar eru til þess að allir aðilar geti unnið vinnu sína svo fullnægjandi sé. Ég held að það geti verið áhyggjuefni ef Alþingi er ekki fyllilega nestað inn í þær miklu breytingar ef af samþykkt frumvarpsins verður. Ég vil biðja hv. þingmann að bregðast við þeim vangaveltum, hverjar hætturnar eru sem fólgnar eru í því, af því að ég er sammála honum um að fjárlaganefnd er vel mönnuð að því er varðar nefndarritara og það er ekkert athugavert við það. En það þarf töluvert meiri styrkingu við þessa innleiðingu.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji eitthvert sérstakt áhyggjuefni fólgið í því að samþykkja breytingartillögu minni hluta fjárlaganefndar sem er sú hin fyrsta sem snýst um að taka tillit til efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra þátta, þ.e. að láta í lagatextanum sjálfum fylgja hefðbundna skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna á sjálfbærni. Telur hann einhverjar sérstakar pólitískar hættur í því fólgnar að láta skilgreininguna fylgja í lögunum?