145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[14:58]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um opinber fjármál. Þeir sem flutt hafa ræður sínar á undan mér hafa farið vel og ítarlega yfir frumvarpið sem er að langmestu leyti unnið í mikilli sátt. Ég mun koma inn á fáein atriði.

Frumvarp til laga um opinber fjármál hefur verið nokkuð lengi í smíðum, en það var fyrst lagt fram á 143. þingi. Það er á engan hátt neikvætt og hefur leitt til vandaðri vinnubragða. Fjárlaganefndir tveggja þinga hafa sótt Svía heim til að kynna sér umgjörð ríkisfjármála þar. Seinni heimsóknin var farin í tíð núverandi fjárlaganefndar og það var mjög fróðlegt að kynnast vinnulagi Svíanna. Nýttist sú heimsókn ákaflega vel inn í vinnu okkar við frumvarpið. Gagna og umsagna hefur verið leitað víða, m.a. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, OECD, fjármálaráði Bretlands, Hagstofu Íslands, Ríkisendurskoðun, Seðlabanka Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Fjársýslu ríkisins og ótal fleiri aðilum.

Eldri lög um fjárreiður ríkisins eru orðin um 20 ára gömul en þóttu mikið framfaraspor á þeim tíma sem þau voru sett og skipuðu Íslandi framarlega meðal aðildarríkja OECD hvað varðaði reikningshald og samanburð fjárlaga og ríkisreiknings. Á síðustu árum hafa æ fleiri ríki sett sér ný lög um ríkisfjármál og fjárlagagerð, mörg hver í kjölfar bankakreppunnar.

Aftur að frumvarpinu. Því er ætlað að skapa ramma fyrir skilvirka beitingu fjármálastefnu og samhæfa hana við peningamálastefnu Seðlabanka Íslands. Í 6. gr. frumvarpsins segir um grunngildin, með leyfi forseta:

„Stefnumörkunin skal byggð á eftirtöldum grunngildum:

1. Sjálfbærni sem felst í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir.

2. Varfærni sem miðar að hæfilegu jafnvægi á milli tekna og gjalda, og að ekki séu teknar ákvarðanir eða aðstæður skapaðar sem geta haft ófyrirséðar og neikvæðar afleiðingar.

3. Stöðugleika sem felst í að stefna í opinberum fjármálum stuðli að jafnvægi í efnahagsmálum.

4. Festu sem felst í því að forðast óvæntar eða fyrirvaralitlar breytingar frá gildandi stefnu og áætlunum um þróun opinberra fjármála.

5. Gagnsæi sem felst í því að sett séu auðsæ og mælanleg markmið til meðallangs tíma um þróun opinberra fjármála í samræmi við grunngildi samkvæmt 1.–4. tölulið. Birta skal reglulega samanburð á markmiðum og árangri með skýrum mælikvörðum.“

Stefnumörkun í opinberum fjármálum skal sem sagt gerð til lengri tíma og ákvarðanir í peningamálum skulu teknar út frá þeim forsendum sem koma fram í langtímaáætlun um ríkisfjármál. Samhæfing markmiða fjármálastefnu og peningamálastefnu skiptir miklu fyrir farsæla hagstjórn og stöðugleika í efnahagsmálum. Í opinberum fjármálum eru markmið sett fram í fjármálastefnu til lengri tíma sem stuðla skal að sjálfbærni opinberra fjárlaga og stöðugleika í efnahagslífinu.

Frumvarpið er umfangsmesta frumvarp sem vísað hefur verið til fjárlaganefndar um árabil. Ákvæðum þess er ætlað að ná til fjármála hins opinbera í heild, þ.e. bæði ríkis og sveitarfélaga. Þar eru ákvæði um margvíslega áætlanagerð og skýrslugjöf sem ætlað er að efla langtímahugsun og ábyrgð í fjármálum, auk þess að bæta árlega fjárlagagerð. Ákvæðunum er einnig ætlað að styrkja framkvæmd fjárlaga, en í samanburði við önnur ríki OECD hefur framkvæmdin verið með lakasta móti hérlendis. Það birtist meðal annars í því að allt of algengt er að fjárlög séu ekki haldin og framúrkeyrsla viðvarandi. Þá er að finna ákvæði í frumvarpinu um innleiðingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla.

Í ákvæðum frumvarps til laga um opinber fjármál felst grundvallarbreyting á framsetningu fjárlagafrumvarps. Byggt er á því að Alþingi veiti fjárheimildir til málefnasviða og málaflokka auk framlags í almennan varasjóð. Ekki er gert ráð fyrir því að fjárveitingar til einstakra ríkisstofnana birtist í frumvarpi til fjárlaga heldur einungis í fylgiriti. Fjárheimildir verða sundurliðaðar eftir málefnasviðum og málaflokkum. Viðfangsefni á gjaldahlið fjárlaga verður að finna í sundurliðun 2 í fjárlagafrumvarpi og verða þau um 900 talsins. Með þeirri breytingu er miðað við að gjaldaliðir fjárlaga skiptist í 34 málefnasvið sem aftur skiptist í um 105 málaflokka. Ávinningur af þessari breytingu felst í því að Alþingi fjallar þá um stærri málefni og skiptingu útgjalda í stórum dráttum og stefnumótun til lengri tíma í stað þess að fjalla um fjárveitingar til einstakra viðfangsefna sem oft vega mjög lítið í heildarútgjöldum ríkisins.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram nokkrar breytingartillögur við frumvarpið. Meiri hlutinn telur að meginmarkmið um fækkun fjárlagaliða, aukna ábyrgð ráðherra og fjárveitingu í varasjóð til að takmarka fjáraukalög sem mest séu öll til bóta.

Ég vil koma inn á tvær af breytingartillögum meiri hlutans. Hin fyrri lýtur að því að Byggðastofnun skuli koma að umsögn um frumvarp til fjárlaga og fjalla um hvernig stefna hvers ráðherra samkvæmt 20. gr. frumvarpsins fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á samræmist byggðaáætlun og sóknaráætlunum landshluta sem fram koma í þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun. Þá leggur meiri hlutinn til að bætt verði málsgrein við 16. gr. um framsetningu frumvarps til fjárlaga þar sem fram komi að talnagrunnur frumvarpsins skuli vera aðgengilegur á tölvutæku sniði og á opnum miðli og skulu þau gögn öll vera aðgengileg öllum almenningi til eftirvinnslu á tölvutækan máta. Með þessari viðbót er ætlunin að tölugrunnur fjárlaga hvers árs verði t.d. auðveldlega samanburðarhæfur við fjárlög fyrri ára og ríkisreikning, en einnig að gögn fjárlaga nýtist betur til eftirvinnslu en áður, svo sem til skilvirkari greiningar og framsetningar.

Innleiðing frumvarpsins hefur auðvitað kostnaðarauka í för með sér, sem rakinn er í nefndaráliti, en til lengri tíma litið er því ætlað að spara fjármuni ríkisins.

Frumvarpið var unnið að langmestu leyti í sátt í fjárlaganefnd og ég vil þakka félögum mínum kærlega fyrir ágæta samvinnu sem hefur verið fróðleg og skemmtileg og til hagsbóta fyrir alla.