145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[15:35]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir skörulega ræðu en ég er með nokkrar spurningar til hans.

Í fyrsta lagi: Hvað er eðlilegra en að ríkið setji lög til að fara eftir, sambærileg lög og það setti um sveitarfélögin, sem sveitarfélögin hafa svo verið að vinna eftir? Eftir því sem ég veit best hefur það bara gengið vel. Sveitarfélögin hafa með miklum viðsnúningi verið að fara inn á þá braut að vera innan þessara marka og mér finnst alveg ótrúlegt ef menn geta verið svo blindir að setja lög á aðra sem þeir geta ekki sætt sig við sjálfir að vinna eftir.

Í þessum lögum er fimm ára svigrúm til að bregðast við og ég spyr: Er það ásættanlegt að misvitrir stjórnmálamenn, þá kannski í bæjarstjórnum, eins og reynslan hefur sýnt, geti skuldsett sveitarfélagið sitt nánast í drep þannig að ekkert annað en gjaldþrot blasi við? Er það ásættanlegt að það séu svo næstu kynslóðir og næstu bæjarstjórnir sem lenda í því að leysa úr þeim vanda? Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann um þessi mörk, hvort þau séu há eða lág, en getum við ekki verið sammála um að ef við ætlum að láta þessi lög og reglur ganga yfir sveitarstjórnir þá eigum við að vinna eftir þeim sjálfir?