145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[15:39]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varfærni í skuldsetningu rétt sem snöggvast, ég get alveg tekið undir það. Það er svo stutt síðan hrunið varð þannig að það er skiljanlegt að við séum ekki alveg búnir að gleyma því. En reynslan hefur sýnt okkur að við þurfum ekkert mörg góðæri til að gleyma þessu hruni, ég tala nú ekki um næstu kynslóð. Í góðærinu gleyma menn sér og gleyma hruninu þannig að ég mundi ekki treysta því að allir verði jafn varfærnir og þeir sem eru í þessum bransa núna.

Varðandi lögbundnar skyldur sveitarfélaga til að þjóna fólki, sjúkum og öldruðum og öllum, þá er það bara hinn eilífi slagur um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það er auðvitað að mörgu að hyggja í því.

Hv. þingmaður minntist á að sveitarfélög gætu ekki byggt félagslegar íbúðir af því að þá rækist það í skuldaþakið. Hver er reynslan hjá þeim sveitarfélögum sem byggðu félagslegar íbúðir án þess að hafa rekstrargrundvöll fyrir því? Ég veit ekki annað en að reynslan af því sé sú að það er búið að sliga þau, sá vandi hefur hvílt á þeim sveitarfélögum í mörg ár ef ekki tugi ára og þau eiga enn í basli með það.

Má ég þá spyrja hv. þingmann hvort hann vilji afnema þessi lög um sveitarfélögin þannig að stjórnmálamenn geti bara skuldsett sveitarfélög eins og þeir vilja, eins og þeir kæra sig um, eins og enginn sé morgundagurinn, eins og þeir ætli ekki að sitja í þessum stólum áfram? Með því að hafa mörkin svolítið rúm, kannski rýmri en þau eru hér, fimm ára svigrúm til að bregðast við einhverju, gætum við verið sammála um að hafa einhver mörk bæði á sveitarstjórnarmönnum og hjá ríkinu?