145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[16:03]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég held að enginn deili um það að við viljum öguð fjármál opinberra aðila, hvort sem er ríkis eða sveitarfélaga, en það er alltaf spurning hvernig við mótum þann ramma um opinber fjármál sem við viljum hafa til viðmiðunar um það hvernig við eyðum þeim tekjum sem við höfum til umráða hverju sinni.

Það hefur margt umhugsunarvert og fróðlegt komið fram í þeirri umræðu sem hefur verið hér í dag. Ég er ekki í fjárlaganefnd og hef ekki verið í þeirri vinnu sem unnin hefur verið undanfarna mánuði og jafnvel ár við að undirbúa frumvarp til laga um opinber fjármál og því kem ég öðruvísi að málinu í umræðunni og tek stóru línurnar í því, það sem þarna er á ferðinni.

Vissulega vakna hjá manni ýmsar spurningar, t.d. hvernig þessi agaði rammi til fimm ára hverju sinni kemur út fyrir ýmsa málaflokka sem ég vil meina að hafi vissulega verið sveltir allt of lengi og allt of lítið fjármagn verið sett í til langs tíma. Hvernig koma þeir út? Svo er það misskiptingin almennt sem er til staðar í þjóðfélaginu í dag og þau tæki og tækifæri sem við höfum sem stjórnvöld til þess að gera drastískar breytingar þar á, sem gætu þýtt að við þyrftum að skuldsetja okkur til einhvers tíma með það að markmiði að sú skuldsetning skili sér til komandi kynslóða og til fólksins í landinu, til innviðauppbyggingar í landinu, til þeirra málaflokka í landinu sem við höfum ekki lagt mest fjármagn í og erum aftarlega á merinni í. Þá vil ég nefna heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið okkar og samgöngumál, þótt tína megi ótal margt annað til sem fellur undir velferðarkerfið okkar, kjör og aðbúnað elli- og örorkulífeyrisþega, þá miklu misskiptingu sem er í búsetuskilyrðum á milli landshluta, mismuninn á orkuverði meðal almennings í landinu, aðgengi að ýmissi þjónustu sem opinberir aðilar veita og er mjög misgóð eftir því hvar fólk býr á landinu og líka á milli þjóðfélagshópa.

Nú er verið að tala um að við beitum mjög agaðri fjármálastjórn. En maður spyr sig þegar við drögum línu í sandinn akkúrat á þessum tímapunkti, þegar við erum aftarlega á merinni í svo mörgum málaflokkum sem ríkið á að bera ábyrgð á og leggja fjármuni til: Er gott að vera með þröngan ramma við þær aðstæður? Það er stór spurning í mínum huga í þessu máli öllu.

Ég líkt og aðrir félagar mínir í Vinstri grænum er mjög sammála því að við þurfum að fara vel með fjármuni ríkisins og við eigum að nýta þá fjármuni sem við höfum til umráða á mjög markvissan hátt og leggja fram góðar áætlanir í þeim efnum hverju sinni, eins og við leggjum til í breytingartillögu okkar að ný ríkisstjórn geri fyrir kjörtímabil sitt. En ég hef miklar áhyggjur af því að við séum núna að setja okkur allt of þröngar skorður, vegna þess að það þarf virkilega að taka á því á mörgum sviðum í samfélaginu. Skuldir eru óskemmtilegar og einhvers staðar stóð: Greidd skuld er glatað fé. En skuldir eru misgóðar. Ef skuldsetning á einhverjum tímapunkti felur í sér að byggð er upp öflug heilbrigðisþjónusta, mikilvægar samgöngur og innviðir í landinu og jöfnuði komið á á milli landshluta varðandi ýmsa opinbera þjónustu og lífskjör, þá getur sú skuldsetning verið mjög góð fyrir komandi kynslóðir og þá kynslóð sem nýtur þess að þarna sé gefið í og ríkið skuldsetji sig tímabundið meira en það gerir alla jafna. Það er annað með skuldsetningu sem felur í sér að farið er illa og glæfralega með fjármuni ríkisins, eins og hefur því miður oftar en ekki verið raunin. Það er farið í ómarkvissar í aðgerðir eins og í byggðastefnu undanfarinna 20 ára þar sem fjármunum hefur verið slett út og suður þegar allt er komið í óefni. Þeir fjármunir hverfa eins og dögg fyrir sólu og nýtast í raun og veru ósköp lítið í þau verkefni sem þeir hefðu átt að nýtast í, af því að þeir koma seint og verkefnin eru illa hugsuð og litlar áætlanir gerðar um hvernig þau geti nýst íbúum sem best. Skuldsetning af því tagi er slæm. Þess vegna er ekki hægt að afgreiða skuldir sem eitthvað af hinu illa, skuldir geta verið af hinu góða þegar verkefnin eru mikilvæg og brýn og koma til með að nýtast komandi kynslóðum vel til framtíðar. Ég tel því að við þurfum að hafa meiri sveigjanleika í þeim ramma sem þarna er verið að leggja til að við verðum innan. Það er mjög mikilvægt.

Það hefur verið komið inn á ýmsa hluti hérna eins og það að brýn þörf hafi verið á að setja fjármálareglu fyrir sveitarfélög. Ég er alveg sammála því en þetta er ekki allt svona einfalt. Það hafa líka verið nefndar félagslegar íbúðir og að þeim hafi fylgt vandi, að sveitarfélögin hafi skuldsett sig of mikið og farið út í byggingu félagslegra íbúða. En ég spyr á móti: Hvað olli því að sá vandi kom til? Ég tel að sá vandi hafi komið til vegna þess að það voru teknar ýmsar ákvarðanir af fyrri ríkisstjórnum sem urðu þess valdandi að það urðu miklir búferlaflutningar af landsbyggðinni. Þess vegna sátu sveitarfélög uppi með þetta húsnæði, illa nýtt, og lentu í vandræðum með það, misstu tekjur vegna brottflutnings og fyrirtæki lögðust af. Margt af þessu var vegna vondra ákvarðana fyrri ríkisstjórnar og ég nefni við þessa umræðu kvótakerfið með sínum ömurlegu afleiðingum á mörg byggðarlög. Þess vegna sátu byggðarlögin eftir í vanda, t.d. með húsnæði í félagslega kerfinu. En ef það húsnæði hefði ekki verið byggt á sínum tíma held ég að sveitarfélögin væru í dag í enn meiri vanda en þau eru með að útvega húsnæði fyrir það fólk sem vill koma til sveitarfélaganna núna og setjast þar að og annaðhvort skapa sér atvinnu eða ganga inn í þá atvinnu sem er í boði. Oftar en ekki er það þetta húsnæði sem bjargar því sem bjargað verður í þeim efnum, því að ekki er verið að reisa húsnæði á þessum stöðum í dag. Staðan er sú að ef menn byggja húsnæði á einhverjum af þeim svæðum sem falla ekki undir virk markaðssvæði þá fellur húsið í verði um leið og byggingu þess er lokið og menn eru farnir að greiða fasteignagjöld af því. Það fellur í verði um leið um 30 eða jafnvel 50%. Þetta er sú sorgarsaga sem menn standa frammi fyrir víða á landsbyggðinni.

Sem landsbyggðarþingmaður hef ég áhyggjur af því að svona strangur rammi hafi áhrif á uppbyggingu ýmissa brýnna verkefna víða um land þar sem menn hafa dratthalast við það í gegnum árin að sinna lögbundnum skyldum á ýmsum sviðum í uppbyggingu innviða samfélaganna. Ég hef áhyggjur af því. Ef við værum öll stödd á sama reit og værum þar jöfn hefði ég ekki þær áhyggjur sem ég hef af því hvaða áhrif þetta gæti haft fyrir marga þá sem hafa dregist aftur úr og á þá misskiptingu sem er fyrir í landinu.

Það hefur verið komið inn á ýmislegt eins og stýrivexti Seðlabankans og hvernig þeir spila saman við efnahag ríkisstjórnarinnar. Vissulega má segja að þetta hafi allt áhrif á hagsveiflur í landinu og það hvernig okkur tekst að stjórna efnahagsmálum. Ég hef komið fram með gagnrýni á ákvarðanir Seðlabankans um að halda uppi þessu vaxtastigi vegna þess að það á kannski við efnahagskerfið á höfuðborgarsvæðinu en það á ekki við svæði vítt og breitt um landið, sem eru í raun og veru gjörólík efnahagssvæði. Þau eru ekki á sama stað og þar er engin þensla eins og á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna eiga ákvarðanir Seðlabankans ekki við þar. Það er engin hætta á því að þar sé nein þensla vegna þess að þessir háu vextir leggjast enn þyngra á fólk þar en annars staðar vegna þenslu í launagreiðslum samfara.

Auðvitað er núverandi ríkisstjórn með allt niður um sig varðandi efnahagsstjórn á tímum þenslu á höfuðborgarsvæðinu. Hún lækkar skatta og tekur þetta allt niður þegar hún ætti við þessar aðstæður að hafa hátekjuskatt, auðlegðarskatt og ná sköttum af þeim sem eru í alvöru að ná inn einhverjum tekjum. En þess vegna geta svona aðgerðir hálfopinberra aðila spilað þannig saman að það heldur ákveðnum hópum í þjóðfélaginu, ákveðnum landshlutum í raun og veru, í sjálfheldu og í gíslingu. Menn geta ekki byggt sig upp vegna þess að það er svo dýrt og þeir eru í einhvers konar spennitreyju af því að stýrivaxtaákvarðanir Seðlabankans og peningastjórnin miðast við einsleitt umhverfi, við hagkerfið á höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst þar sem þensla ríkir. Allt leiðir þetta til þess sama, það dregur úr krafti og getu og það dregur úr burðum þessara veiku svæða til að spýta í lófana og byggja sig upp, vegna þess að það er svo dýrt.

Ef þetta bætist við í ofanálag getur það orðið til þess að menn verði enn þá aftar á merinni með að fá fjármuni til þarfra verkefna úti á landi, vegna þess að það verður afgangsstærð og ekki má setja í brýn verkefni. Það hefur nýlega verið í umræðunni að klára að ljósleiðaravæða þau svæði á landinu sem hafa ekki enn verið ljósleiðaravædd og þessi ríkisstjórn hefur farið fram með gassagangi í þeim efnum og tilkynnt að þetta sé allt að bresta á og í fjárlögum þessa árs eru um 300 milljónir, minnir mig, ætlaðar til verkefnisins. En hvað kostar það verkefni ef menn mundu klára að leggja ljósleiðara til þessara nokkurra prósenta landsmanna, svo að þeir gætu búið við ljósleiðarakerfi? Það kostar 6 milljarða. Miðað við áframhaldandi mjatl í þennan málaflokk gæti það orðið að raunveruleika — ég er ekki með reiknivélina í hausnum í augnablikinu — kannski árið 2050 eða seinna. Mér finnst að við þessar aðstæður verðum við svolítið að hugsa hvar við erum stödd með marga málaflokka og hvar við viljum gera betur núna þegar hagur ríkisins vænkar. Þurfum við ekki að gefa í á einhverjum sviðum sem við getum orðið sammála um sem samfélag, hvort sem það heitir Landspítali, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, samgöngur, innviðir eða kjör aldraðra og öryrkja sem eru alltaf til skammar? Getum við ekki jafnað kjörin áður en við setjum okkur of þröngan ramma í fjármálum ríkisins?

Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að verið sé að færa meira vald frá Alþingi, frá fjárveitingavaldinu inn í ráðuneytið. Ég tel að það sé hættulegt. Það er ekki nægjanlega gegnsætt og ekki nóg ábyrgð, finnst mér, því að embættismenn, eins góðir og þeir eru, standa ekki frammi fyrir því að vera kosnir inn á þing eða út af þingi eða inn í ráðuneyti eða út úr ráðuneyti eins og alþingismenn gera. Það er ekkert endilega alltaf þannig að þeirra gleraugu séu betri en gleraugu okkar alþingismanna eða að þar ríki skilningur og að þeirra sjónarmið nái út fyrir þann hring sem kannski afmarkast að mörgu leyti af höfuðborgarsvæðinu.

Þetta eru vangaveltur mínar í þessu máli og ég mun halda áfram að liggja undir feldi í því efni.