145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:00]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var svo sannarlega að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn. Hv. þingmaður getur vitnað í orð eða atkvæðagreiðslur Samfylkingarinnar frá þessum tíma en það var ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og síðar Halldórs Ásgrímssonar, sem bar ábyrgð á þessum aðgerðum og lagði upp í þær. Þannig er það. Það er gagnrýni sem á heima á réttum stað.

Þegar Samfylkingin fór í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki þá var hætt við lokahnykkinn í skattalækkunum að kröfu Samfylkingarinnar og farið út í að hækka barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur og atvinnuleysistryggingar frekar en að lækka enn frekar skatta á hátekjufólk. (Gripið fram í.) Ég skil vel og það er eðlilegt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi viljað koma hér upp í andsvar þegar ég gagnrýndi hagstjórn Sjálfstæðisflokksins, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf látið í það skína að það sé hann einn sem geti stjórnað landinu vegna ótrúlegrar snilldar í hagstjórn. Dæmin sanna annað. Sjálfstæðisflokkurinn, eftir 18 ára veru í ríkisstjórn, kafsigldi þannig íslenskri þjóðarskútu að meiri háttar átak þurfti til til að tryggja að landið yrði ekki gjaldþrota. Og hvað gerði Sjálfstæðisflokkurinn á meðan sú vinna stóð yfir, á meðan fólk barðist við að halda landinu á floti og tryggja jafnframt lágmarksvelferð fyrir fólk hér í landinu? Þá stóð hann á hliðarlínunni, gagnrýndi allt sem hægt var að gagnrýna, var til vandræða og vesens og sýndi engan vilja til að taka nokkra ábyrgð á þeim skaða sem hann olli íslensku samfélagi. Og nú er hann aftur kominn í þá stöðu að byrja næstu óvissuferð.