145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með síðasta ræðumanni. Við skulum standa vörð um Ríkisútvarpið og sýna þverpólitíska samstöðu um það í þessum sal.

En í dag vil ég þó hvetja þingmenn, sérstaklega varðmenn kvótakerfisins í þessum þingsal, til að fara í bíó og sjá mynd sem nefnist Veðrabrigði eftir Ásdísi Thoroddsen. Sú mynd sýnir grímulaust þá miklu ógæfu sem kvótakerfið hefur leitt yfir sjávarplássin í landinu og fólkið sem í þeim býr. Hún fjallar um Flateyri, vestfirskt sjávarpláss þar sem útvegur og fiskvinnsla stóðu með miklum blóma og döfnuðu og allt lék í lyndi þar til dag einn árið 2007 að Flateyringar vöknuðu upp við það að kvótinn hafði verið seldur og helmingur íbúa hafði misst lífsviðurværi sitt. Þetta er mynd sem sýnir lífsbaráttu fólksins, æðruleysi þess og von þrátt fyrir ítrekuð áföll. Hún afhjúpar harðneskju ósanngjarnra leikreglna en sýnir um leið dugnað og kjark í vonlitlum aðstæðum.

Hæstv. forseta þingsins, Einari K. Guðfinnssyni, bregður fyrir í einu atriði myndarinnar þar sem hann situr á kosningafundi með örvingluðum íbúum en veitir takmörkuð svör þar sem kvótakerfið kemur til tals. Í lok myndar hefur enn eitt áfallið dunið yfir plássið og við blasir nánast fullkomið vonleysi.

Þessi mynd þyrfti að vera skylduáhorf fyrir alla sem koma nálægt stjórnmálum en því miður voru ekki nema tveir hv. þingmenn á þessari sýningu, ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, en þessi mynd er kennslustund í því hvernig ekki á að semja leikreglur í samfélagi okkar. Og ef menn hafa samvisku þá hljóta þeir að sjá, eftir að hafa horft á þessa átakanlegu afhjúpun, að við verðum að breyta þessu óréttláta kvótakerfi.


Efnisorð er vísa í ræðuna