145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Alþingi er kjaradómur aldraðra og öryrkja, sagði hv. þm. Helgi Hjörvar í umræðu í upphafi þessarar viku þegar við ræddum hér um störf þingsins. Ég tek undir það. Ég ætla aftur að ítreka það og brýna þingmenn stjórnarflokkanna, og auðvitað alla þingmenn, til að reyna að ná samstöðu um að við breytingartillögur á fjáraukanum fyrir 2015 náum við samkomulagi um að uppfylla kjarabætur til aldraðra og öryrkja eins og allir kjarasamningar og nú Kjaradómur fyrir æðstu embættismenn ríkisins hafa fjallað um þar sem fjallað er um afturvirkni. Mér sýnist að aldraðir og öryrkjar séu einu aðilarnir sem eru skildir eftir í þjóðfélaginu. Þeir fá ekki afturvirkar greiðslur eins og samið hefur verið um og mér finnst það til skammar. Það er okkur ekki samboðið nú þegar svo vel gengur í þjóðfélaginu sem okkur hefur tekist vel að endurreisa eftir hrunið. Ég fullyrði að það hafi alltaf verið ætlun allra alþingismanna sem þurftu að standa í niðurskurði við fjármálahrunið að skerðingum yrði skilað til baka um leið og betur færi að ganga í þjóðfélaginu. Nú er það svo.

Þegar við erum að ræða þessi mál núna, jafnt í þingflokkum — og ég hvet sérstaklega stjórnarþingmenn til að ræða það í þingflokkunum sínum. Nú er tímabært að ræða hvort það sé ekki sanngirnisatriði að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja afturvirkt að þessu sinni eins og svo oft áður hefur verið rætt um. Þeir eiga þennan rétt. Þeir sitja eftir og það er Alþingi og okkur til skammar ef þetta verður ekki lagfært.

Auk þess vil ég segja, virðulegi forseti, að ég held að við alþingismenn eigum að stíga á stokk og heita á okkur (Forseti hringir.) að við samþykkjum á Alþingi áskorun til ríkisstjórnar um að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði samþykktur sem allra fyrst vegna þess að Ísland er að verða eini aðilinn sem er eftir í því og það er til skammar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna