145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Okkur er það líklega flestum í fersku minni þegar Ísland greiddi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna atkvæði gegn tillögu þess efnis að kjarnorkuvopn yrðu bönnuð. Svör hæstv. utanríkisráðherra voru á þá leið að Ísland styddi við þá afvopnunarsamninga sem nú þegar eru í gangi en það er einmitt í skjóli þeirra samninga sem kjarnorkuveldin skáka og endurnýja kjarnorkubúr sín þar sem eldri búnaði er skipt út fyrir nýrri og öflugri vopn sem vissulega eru þó eitthvað aðeins færri. Bandaríkin, Rússland, Bretland og Kína hafa öll boðað stórfellda endurnýjun þrátt fyrir að gildandi afvopnunarsamningar stefni í orði kveðnu að útrýmingu þessara vopna. Í ljósi þessa hefur meiri hluti þjóða heims komist að þeirri niðurstöðu að ganga þurfi lengra. Þess vegna voru lagðar fram róttækar tillögur um allsherjarbann.

Eins og fulltrúi hins alþjóðlega átaks til útrýmingar kjarnorkuvopnum hefur bent á í skeyti til allra sitjandi alþingismanna mun hinn 7. desember nk. gefast nýtt tækifæri til að bæta fyrir hið misráðna nei-atkvæði. Sú atkvæðagreiðsla verður ekki í undirnefnd eins og hin fyrri heldur á sjálfu allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Grannt verður fylgst með því hvernig fulltrúi Íslands mun kjósa í þeirri atkvæðagreiðslu. Það er algjör lágmarkskrafa að Ísland sitji hjá, líkt og NATO-þjóðin Noregur gerði síðast, til að vinna ekki beinlínis gegn kjarnorkuafvopnun. Mestur sómi væri þó auðvitað í því að styðja málið eins og frændur okkar Svíar hafa gert. Á fundi utanríkismálanefndar hef ég komið þessum skoðunum mínum til fulltrúa í utanríkisráðuneytinu og ég vona svo sannarlega að á þetta verði hlustað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Efnisorð er vísa í ræðuna