145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Eitt af því fyrsta sem við þingmenn fengum vorið 2013 þegar við hófum störf hér eftir kosningar var skýrsla um traust til Alþingis þar sem meðal annars kom fram að um 80% þeirra sem svöruðu vantreystu Alþingi vegna þess hvernig samskiptamáti þingmanna væri, hvernig við kæmum fram hvert við annað og vegna þess almenna virðingarleysis sem þingmenn virtust sýna hver öðrum. Í stað þess að vera að ræða málefnalega um málefnin og rökræða þá værum við í óþarfarifrildi og skítkasti. Eftir því sem ég best veit og eftir því sem síðustu kannanir hafa sýnt þá höfum við ekki náð að hífa upp þetta traust neitt sérstaklega mikið. Það er kannski líka vegna þess að í þessari skýrslu kom fram að við erum kannski miklu fremur að ræða, og þeir sem tóku þátt í þessari könnun virðast trúa því, um eigin hagsmuni og hagsmuni flokksins frekar en það sem raunverulega skiptir máli í umræðunni í þjóðfélaginu.

Samkvæmt síðustu skoðanakönnun sem kynnt var t.d. á margumræddum fundi sem ég hef margnefnt hér í ræðustóli í vikunni hjá Öryrkjabandalaginu síðasta laugardag, samþykktu yfir 95% þeirra sem svöruðu, meira að segja ríka fólkið í Garðabæ, og voru á því að eldri borgarar og öryrkjar ættu að fá kauphækkun til jafns við aðra í þjóðfélaginu. Erum við að hlusta á það? Ætlum við að laga það? Er það núna í fjáraukanum?

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa nefnt það hér að við eigum að einbeita okkur að þessu, hlusta á hjartsláttinn í þjóðfélaginu. Hvað vill fólk? Það vill þessa hækkun og 90% þjóðarinnar vilja leggja aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið, það kom fram í skoðanakönnuninni í fyrra sem Píratar gerðu. Erum við að hlusta á það? Nei, mér finnst það ekki. Mér finnst að á þessu kjörtímabili hafi aðallega verið unnið að því að auka hag þeirra sem meira eiga á kostnað þeirra sem minnst eiga.

Ég skora á þingmenn enn og aftur að sýna það núna (Forseti hringir.) á þeim tveimur vikum sem eftir eru að við stöndum saman, við hlustum á fólkið og leiðréttum þetta. Ef það er ekki hægt núna þá held ég að það sé aldrei hægt.


Efnisorð er vísa í ræðuna