145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég hef mikinn áhuga á því hvernig þingstörfin eru og hvernig þau eru á Norðurlöndunum og hvernig við getum bætt þingstörfin hér. Mér hefur fundist við eyða mjög miklum tíma í að ræða mál í þingsal og síðasta dæmið um það er mál Þróunarsamvinnustofnunar. Ef ég mætti ráða, sem væri ágætt, þá mundi ég gjarnan vilja sjá meira nefndastarf vegna þess að mér finnst vinnan þar oft mjög góð. Nú erum við búin að klára vinnu við opinber fjármál í fjárlaganefnd sem gekk mjög vel, að vísu var enginn stórkostlegur ágreiningur þar á ferð. Ég mundi vilja leggja aukna áherslu á nefndastörf og síðan eigum við ekki að afgreiða mál út úr nefndum í mjög miklu ósætti vegna þess að það býður upp á læti og miklar umræður og málþóf í þinginu, það er bara þannig.

Mig grunar að annars staðar á Norðurlöndunum, ég tel mig vita það, sé ekki farið með mál inn í þingsal í ósætti. Menn eru búnir að ræða þau fyrir fram og komast að málamiðlun. Mér finnst þessi vinnubrögð í rauninni lýjandi og okkur ekki til sóma þannig að ég er bara að reyna að ræða þetta og kannski koma fleiri og taka til máls um það hvernig við getum breytt þessu. Við gætum til dæmis opnað nefndarfundina meira þannig að við tækjum umræðuna í nefndum, þar eiga allir flokkar sína fulltrúa og þar koma gestir. Mér skilst til dæmis að í Noregi komi menn næstum því bara í þingsal til að greiða atkvæði. Ég er ekki að mæla með því, mér finnst umræðan í þingsal oft góð, en mér finnst fyrirkomulagið sem við erum með ekki gott, mér finnst það sóun á tíma og við þurfum að fara að hugsa alvarlega um hvernig við ætlum að hafa þetta í framtíðinni og reyna að breyta þessu. Þetta veltur á okkur, 63 þingmönnum.


Efnisorð er vísa í ræðuna