145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Margt í þessu frumvarpi er til bóta fyrir umgjörð opinberra fjármála og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum greiða atkvæði með þeim greinum hér á eftir. Hins vegar teljum við stórvægilegan galla á frumvarpinu sem einkum felst í þeim ákvæðum sem lúta að hagstjórninni og hvernig hún er bundin niður samkvæmt tilteknum reglum sem við teljum binda hagstjórnarvald hins opinbera allt of mikið þegar kemur til að mynda að tækifærum til að beita því til sveiflujöfnunar. Við munum fara nánar yfir það í atkvæðaskýringum við einstakar greinar þannig að við munum ekki geta stutt þetta frumvarp í heild. Við erum hins vegar með breytingartillögur og vonumst að sjálfsögðu til þess að aðrir hv. þingmenn ljái þeim atkvæði sitt til að unnt sé að skapa sátt um þennan mikilvæga ramma um það hvernig við höldum á fjármálum ríkisins.