145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög ánægjulegt mál, stórt mál, örugglega stærsta málið sem við afgreiðum á þessu þingi, og það er ánægjulegt að þokkaleg sátt náist um það. Þegar þessi lög verða orðin að veruleika eiga þau að ýta undir það að bæði í verki og orði hvetjum við til langtímahugsunar og aga í ríkisfjármálum og ræðum frekar stóru málin til framtíðar, örugglega og vonandi eitthvað á kostnað smærri mála.

Þetta tæki, þessi umgjörð, á sér fyrirmynd í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þau eiga það sammerkt að það er þverpólitísk samstaða um ábyrgð í opinberum fjármálum í þeim löndum. Það gerist hins vegar ekki með lagasetningu, það gerist vegna þess að við sem erum hér inni ákveðum það sem og fjölmiðlamenn og almenningur. Ég vona að við séum að fara sömu leið.