145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Lífeyrisskuldir eru með nákvæmlega sama galla og allar aðrar skuldir, þann galla að það þarf að borga þær, og þess vegna er afskaplega mikilvægt í allri áætlunargerð að við séum meðvituð um hverjar þær skuldbindingar eru. Þær fara ekki frá okkur. Ef við horfum ekki á þær, á raunveruleikann, erum við að senda þann reikning til barnanna okkar og barnabarnanna og það höfum við gert með nokkrum hætti í gegnum tíðina. Þessi tillaga kemur ekki í veg fyrir það en hún gerir það að verkum að það verður skýrt hverjar þessar lífeyrisskuldbindingar eru. Bara svo því sé til haga haldið mun Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, að öllu óbreyttu, fara á hausinn 2027 og þá þurfum við að borga 10 milljarða að auki í tíu ár úr ríkissjóði til að mæta þeirri skuldbindingu.

Ég segi já.