145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp í heild á rætur að rekja til vinnu á síðasta kjörtímabili og að því hafa allir stjórnmálaflokkar komið. Þessi grein er annars eðlis. Hún er búin til af þessari ríkisstjórn á forsendum þessarar ríkisstjórnar og um hana hefur ekki verið þverpólitísk samvinna eða samstarf. Þessi viðmið þurfa að byggja á almennu sammæli vegna þess að þau geta haft grundvallaráhrif á möguleika stjórnvalda á hverjum tíma til að beita pólitísku vali. Á að lækka skuldir eða á að verja atvinnuástand? Á að lækka skuldir eða á að verja heimilin? Á að lækka skuldir eða á að auka fjárfestingu í velferðarþjónustu?

Þetta er grundvallaratriði sem stjórnvöld á hverjum tíma verða að hafa frelsi til að taka ákvarðanir um og það er ekki rétt að eitt stjórnmálaafl með eina hugsjón ætli að binda önnur stjórnmálaöfl með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Þess vegna greiðum við atkvæði gegn þessari grein og áskiljum okkur rétt til að breyta henni þegar við komumst í meiri hluta á nýjan leik. (Gripið fram í: Þess er skammt að bíða.)