145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[11:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að ná þeim árangri sem í orði kveðnu allir þingmenn, nokkurn veginn í það minnsta, eru sammála um og þeir sem ræða um þjóðmál verðum við eðli máls samkvæmt að setja okkur reglur. Þess vegna sömdum við og samþykktum 7. gr. Ég hafna því algjörlega að hér sé um það að ræða að þessi varúðarregla sé einungis um það ef hér verður heimsendir. Ég hvet þá sem vilja kynna sér málið að lesa 10. gr. Hér segir, með leyfi forseta:

„Ef grundvallarforsendur fjármálastefnu bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna, sem ógerlegt er að bregðast við með tiltækum úrræðum, skal ráðherra“ o.s.frv.

Virðulegi forseti. Hér er ekki verið að tala um heimsendi, það er langur vegur frá. Hér eru allir þeir fyrirvarar sem þarf til þess að grípa inn í ef svo ber undir.