145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[12:29]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef ítrekað sagt eru önnur frumvörp í ferli og munu koma fram á næstunni. Ég hef líka lagt áherslu í mínu máli á að mikilvægt er að menn horfi á heildarmyndina. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður telur þetta frumvarp fela lítið í sér. Ég tel hér verið að gera umtalsverðar breytingar sem munu leiða til þess að á næsta ári, ef þingið afgreiðir málið, verði byggðar fleiri hundruð íbúðir sem byggjast einmitt á búseturétti og húsnæðissamvinnufélagslöggjöfinni. Ég ítreka að ég tel mjög mikilvægt að þingið og velferðarnefnd fari vel yfir málið. Það er einkar mikilvægt að bæta réttarstöðu húsnæðissamvinnufélaganna í samræmi við þetta frumvarp og mun tryggja það að fjöldinn allur af fjölskyldum mun fá húsnæði.