145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[12:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og bíð eftir svari við þriðju spurningunni um þessa stóru málsgrein, bundna í lög, um það sem ekki má.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar enn. Hún tengist 10. gr. þar sem fjallað er um félagsmann sem hefur notfært sér rétt sinn til að kaupa búseturétt en þarf síðan að inna af hendi búseturéttargjald.

Það er hins vegar tekið fram, í lok þessarar greinar, að félagsmaður beri ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins.

Það er spurningin til hæstv. ráðherra: Er það stjórnin sem ber ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins eða hver ber ábyrgð á húsnæðissamvinnufélagi ef það eru ekki þeir sem eru félagar í húsnæðissamvinnufélaginu? Hver getur þá borið ábyrgð? Er það stjórnin sem félagsmenn kjósa, ef félagsmenn bera ekki á einhvern hátt ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins, þó ekki sé nema þeirri hlutdeild þeirra sem búseturétturinn er? Ef hæstv. ráðherra vildi aðeins nálgast þessa spurningu líka.