145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[12:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna sem snýr að síðustu setningunni í 6. gr. má segja að enn á ný sé um ákveðna lagatækni að ræða þar sem verið er að ítreka, og það er það sem endurspeglast í öllu frumvarpinu, mikilvægi þess að félagsmenn í samvinnufélögum, þar sem sjálfsábyrgð er eitt af grunngildum samvinnuhugsjónarinnar, átti sig á eigin ábyrgð á þátttöku í félaginu.

Við erum að ítreka að það verði að kynna fyrir þeim sem koma inn í félagið, félagsmönnum og þeim sem kaupa búseturétt, hvaða ábyrgð og skyldur þeir eru að taka á sig með því að ganga í félagið. Það hafa komið upp dæmi þar sem svo virðist vera að félagsmenn átti sig einfaldlega ekki á því hvers konar félagi þeir eru að taka þátt í með því að verða félagsmenn og kaupa síðan búseturétt í húsnæðissamvinnufélagi. Ég ítreka það sem snýr að þessu: Ef velferðarnefnd telur ástæðu til að taka þetta út þá held ég að það sé eitthvað sem er mikilvægt að við förum yfir og hvernig við viljum orða þetta til að skerpa á þessari sýn okkar á lögin.

Varðandi 10. gr., þ.e. hver ber ábyrgðina á heildarskuldbindingunum, þá er það félagið sjálft sem ber ábyrgðina. Ábyrgð félagsmanns sem kaupir búseturétt takmarkast við andvirði búseturéttarins en ekki neitt annað. Það er eitthvað sem við teljum mjög mikilvægt að sé skýrt tekið fram. Þar af leiðandi skiptir það líka máli, fyrir alla þá sem koma að félaginu, að huga að því að teknar séu skynsamlegar og góðar ákvarðanir og það séu sameiginlegir hagsmunir allra að félaginu gangi vel.