145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[13:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans yfirferð og ýmsar ábendingar um þann lærdóm sem við getum dregið af fyrri hlutum í húsnæðismálum landsmanna. Það er gaman að heyra að þingmaðurinn hefur lengi verið meðlimur í húsnæðissamvinnufélagi.

Fyrsta atriðið sem ég vildi inna þingmanninn eftir er þetta: Mér virðast ýmsar þjóðir — ekki síst nágrannalönd okkar, Norðurlöndin, sem ég veit að þingmaðurinn horfir mikið til í pólitísku samhengi — hafa nýtt þetta form í miklu ríkari mæli en við sem úrlausnarefni í húsnæðismálum, ekki síst fyrir ungt fólk. Andelslejligheder, sem við þekkjum frá nágrannalöndum okkar, eru að mörgu leyti miklu útbreiddari, að minnsta kosti í sumum þeirra, en hér er. Sér hv. þingmaður einhverjar augljósar leiðir til þess að við getum rutt þessu formi meira til rúms hjá okkur, gert það að fýsilegri valkosti? Aðrar en þær að laga þennan lagaramma, ég held að full ástæða sé til þess. Ég held að því miður hafi orðið of mörg slys, bæði í húsnæðissamvinnufélögunum en líka í þessum formum sem þingmaðurinn nefnir, eins og Eir og fleiri sem falla í raun utan þessa lagaramma. Ég tek undir með þingmanninum, það er mikilvægt að taka til alvarlegrar skoðunar hvort hægt sé að fella þau undir þessi lög eða önnur svo um þau séu líka skýrar reglur.

En hvernig telur þingmaðurinn að við gætum helst gert húsnæðissamvinnufélögin að stærri þætti í húsnæðismálum á Íslandi?