145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[13:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög góð spurning. Nærtækt væri að segja að stjórnvöld, ef pólitískur vilji er til þess, ýti undir þetta form, hlúi að því; það eru margar leiðir færar í þeim efnum. Það má spyrja: Hvers vegna skyldu menn vera akkúrat þessi missirin að gefa eftir umtalsverðar skatttekjur ríkis og sveitarfélaga? Til þeirra sem eru að ráðstafa séreignarsparnaði í að mynda eign í einkaeigu í húsnæði, en ekki vera með neins konar skattalegt hagræði hins vegar til annarra búsetuforma eins og hér eru undir, sem af ýmsum ástæðum, félagslegum og öðrum — að því marki sem menn eru að kaupa sér búseturétt þá. Það er þá auðvitað eitthvað í áttina. En það væru ýmsar leiðir til þess. Til dæmis að reyna að tryggja þeim eins hagstæða fjármögnun á fjárfestingum og mögulegt væri o.s.frv., reyna að greiða götu þess að þetta form gæti blómstrað.

Eins og ég rifjaði upp bundu menn miklar vonir við þetta á sínum tíma, á níunda áratugnum, og sannarlega hefur þetta verið ágætisviðbótarúrræði fyrir marga í húsnæðismálum. Ég tek undir það að miðað við þróun mála í mörgum nálægum löndum þá hefur þetta gerst í minna mæli og verið hægara hér en maður hefði vonað. Þó að vissulega hafi hér á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri munað talsvert um það húsnæði sem bæst hefur við í formi húsnæðissamvinnufélaga.

Þetta er hlutur sem er vel þess virði að skoða. Er eitthvað sem vilji er til að gera til þess að gera þetta form enn aðgengilegra fyrir fólk? Mér finnst sjálfsagt mál að hafa það undir í skoðun velferðarnefndar á þessu máli þó að þetta sé í grunninn fyrst og fremst tæknilegt frumvarp.