145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef það á að vera að marka það að stjórnmálamenn beri þetta form fyrir brjósti og vilji hlúa að samvinnufélögum í þessum efnum, er það þá ekki spurning hvernig þessi félög njóti jafnræðis á við aðra? Man ég ekki rétt að þegar farið var í umfangsmiklar leiðréttingar gagnvart þeim sem eru með húsnæði í einkaeigu hafi þær aðgerðir ekki náð til þessara félaga?

Nú man ég þetta kannski ekki rétt en hv. þingmaður leiðréttir mig þá ef hann kann það betur. Eitthvað finnst mér að hafi staðið á aðgerðum stjórnvalda til að hjálpa þessum félögum í þeim viðfangsefnum sem við þeim blöstu eftir hrun.

Ég vildi hins vegar spyrja þingmanninn um eftirlit með þessari starfsemi. Hér er til dæmis gert ráð fyrir að banna það að greiða arð af þessum félögum. Er þá ekki mikilvægt að eftirlit með þeim sé miklu betra og sýna ekki þessi dæmi um erfiðleika sem þau hafa ratað í á undanförnum árum að stundum hefur skort upp á bæði eftirlit og leiðbeiningu? Ef það á að virka að banna arðútgreiðslur úr svona félögum eða fyrirtækjum í velferðarþjónustu eða annað slíkt, er þá ekki nauðsynlegt að hafa eftirlit með því að menn reyni ekki að smygla fé út úr félögunum með öðrum hætti; með reikningum frá öðrum félögum eða greiðslum sem heita eitthvað annað en arðgreiðslur en eru í eðli sínu nákvæmlega eins?