145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ekki sé ofmælt að segja að síðastliðin 20 ár, rúm, með stuttu tímabili sem undantekning er á, hafi einkaeignarstefnu í húsnæðismálum verið hampað og ýtt undir hana linnulaust á kostnað annarra forma. Það gekk auðvitað lengst þegar menn beinlínis lögðu niður félagslegt húsnæðiskerfi á Íslandi, lokuðu Byggingarsjóði verkamanna og öllu því.

Varðandi skuldaniðurfellinguna miklu þá var það eitt af þessum mjög svo umdeildu atriðum þegar farið var að ráðstafa gríðarlegum fjármunum úr ríkissjóði að aðilar eins og þessir skyldu vera skildir eftir; og leigjendur almennt sem enga leiðréttingu af neinu tagi hafa fengið. Það var sagt að það væri alveg að koma eitthvað handa þeim en nú er eitt og hálft ár síðan eða hvað það nú er. Við það situr. Ekkert bólar á frumvörpum þar um frá hæstv. ráðherra.

Að lokum er það svo alveg rétt að það þarf að hafa eftirlit. Það er til lítils að setja reglur sem eiga að ná fram ákveðnum markmiðum ef ekki er svo fylgst með því að eftir þeim reglum sé farið. Nú held ég út af fyrir sig að þessi félög, gegnum það að birta ársreikninga sína, verði að sýna fram á úttektir af því tagi sem hér er fjallað um. Það hlýtur að vera hægt að fylgjast með að það sé gert og einhver viðurlög við því ef svo er ekki. Ég geng út frá því að þannig sé málið hugsað. Þetta eru skyldur og kvaðir sem félögin verða að takast á hendur.

Ég skal athuga betur hvernig stendur á því og hver á að fylgjast með því að hinar reglubundnu úttektir séu gerðar sómasamlega (Forseti hringir.) o.s.frv. Þetta er með svolítið mismunandi hætti eftir því hver á í hlut. Af því að ég nefndi Eir og aðra slíka aðila — þar átti að heita að sýslumenn samþykktu veðsetningar og Ríkisendurskoðun liti síðan yfir það, en kannski hefur þar meira verið um stimpil að ræða en eiginlegt eftirlit.