145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

370. mál
[14:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Eins og flestir þekkja taka stór verkefni gjarnan lengri tíma en maður ætlar. Þetta hefur verið mjög mikið og gott samráð, bæði í þessu frumvarpi og öðrum. Ég vil fá að nota tækifærið og þakka starfsmönnum ráðuneytisins kærlega fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt í málið. Ríkisstjórnin í heild stendur að skuldbindingunni sem við lögðum fram í tengslum við gerð kjarasamninga í vor. Við höfum öll, eins og kemur fram í frumvarpinu, verið að reyna að gera okkar til að það gangi eftir. Hér kemur til dæmis inn nýtt ákvæði sem snýr að því að fólk geti búið í húsnæði sínu í 12 mánuði þrátt fyrir nauðungarsölu, sem er mikil réttarbót fyrir þá sem eru í húsnæðissamvinnufélögunum. Þetta er ákvæði sem hefur hingað til verið til dæmis í lögum um nauðungarsölu. Við áttum mjög gott samráð við innanríkisráðuneytið hvað þetta varðar. Ég er búin að fara í gegnum þær tillögur sem fjármálaráðherra hefur lagt fram og snúa að húsnæðismálunum. Samstarf við fjármálaráðuneytið hefur líka verið mjög gott þegar kemur að því að vinna að þessum málum. Við erum að tala um stóra yfirlýsingu sem skiptir verulega miklu máli. Þá er það einfaldlega þannig að það tekur tíma að vinna slík verk. En frumvörpin munu koma fram á næstunni.