145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

371. mál
[15:26]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir hans ágætu ræðu um þetta mál. Ég vil byrja á að taka undir það með þingmanninum að ég teldi það framfaraskref að við gætum sameinast um eina öfluga rannsóknamiðstöð þarna sem og víðar á landinu. Hugur minn stendur einmitt mjög til þess að geta eflt starfsemi sem víðast með því að fá vísindamenn til starfa, sem oft og tíðum eru einyrkjar eða finna sig svolítið landlausa, svo að við gætum komið upp slíkum stofnunum. Ég tek undir hvert orð sem hv. þingmaður sagði um það. En auðvitað er það stærra mál en hér er.

Þá vil ég taka fram að sú hugmynd sem ég mælti hér fyrir áðan, um sameiningu þessara rannsóknastofnana, er ekki skipun eða ákvörðun sem kemur ofan frá. Þetta er beiðni þessara stofnana sjálfra sem leita til ráðuneytisins um það að fara í þetta verkefni. Það er ekki síst vegna þess að RAMÝ, eða rannsóknastöðin við Mývatn, sem er tveggja manna starfsstöð, telur allt of mikinn tíma fara frá vísindastörfum í bókhald, skrifstofuhald og alls kyns utanumhald sem við erum í meira mæli að krefjast að opinberar stofnanir sinni; að það sé allt of mikið starf miðað við að þarna vinni einungis tveir starfsmenn. Það er þessi stofnun sjálf sem vill tengjast Náttúrufræðistofnun Íslands og telur að með því muni hún styrkja og efla starfsemi sína og þar með geta einbeitt sér enn frekar að rannsóknastarfinu við Mývatn og Laxá og ekki hvað síst að miðla því rannsóknastarfi áfram til frekari starfa innan stórrar stofnunar. Vinnan sem þarna fer fram er kannski líka dálítið einangruð, pökkuð niður í kassa yfir vetrartímann, og aðrir hafa þá ekki sama aðgengi að þeim fínu gögnum sem verið er að afla og eru til. Þess vegna græðum við öll á því, til frekari nýsköpunar eða hjálpar náttúrunni þarna, að þessi sameining eigi sér stað sem ósk kemur um frá báðum þessum forstöðumönnum sameiginlega. Ég tel það mikinn ávinning og nánast einsdæmi á Íslandi, í allri þeirri sameiningarumræðu sem við höfum farið í gegnum í þingsölum, að það séu forstöðumennirnir sem koma og leita ráða og biðja um sameiningu.

Ég ferðaðist til Mývatns í sumar og ræddi við sveitarstjórnarmenn og líka forstöðumanninn í náttúrustofu á Norðausturlandi, á Húsavík, og auðvitað heyrði ég það, og ekki síst hjá forstöðumanni, að hann hefði gjarnan viljað sameinast. En náttúrustofur eru á vegum sveitarfélaganna, eins og ég veit að hv. þingmaður veit, sem hefur miklu betri yfirsýn og þekkingu á því hvernig þær urðu til en sú sem hér stendur. Það væri ekki hægt fyrir okkur að ráðskast þannig með það að þær yrðu í þessu sameiningarferli.

Ég vona svo sannarlega að ég geti fullvissað þingmanninn og þingheim um það að við ætlum ekki að skerða þessa starfsemi á Mývatni, höfum sagt það og viljum að stofnunin sé líka í mjög góðu samstarfi og samvinnu við Náttúrufræðistofnun. En takist okkur hér á Alþingi að búa til enn öflugri rannsóknastofnun með fleiri stofnunum við Mývatn þá er ég til.