145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

371. mál
[15:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að lokum taka það fram svo enginn misskilningur sé uppi um það efni að þau sjónarmið sem ég hef hér sett fram hafa ekkert með ágæti Náttúrufræðistofnunar Íslands og RAMÝ að gera og ég skil vel afstöðu forstöðumannanna og ekki síst afstöðu forstöðumanns RAMÝ. Það gefur augaleið að það er krefjandi að vera sjálfstæð stofnun með svo lítið bakland í að sinna stjórnsýslunni og þess háttar. Auðvitað er sú hætta fyrir hendi að vísindamenn, sem vilja fyrst og fremst stunda sínar rannsóknir, verði að hálfgerðum möppudýrum vegna stjórnsýsluumsvifa og skriffinnsku. En þá er að reyna að skoða hvaða leiðir eru vænlegastar til þess að leysa úr því.

Ég ætla að vera alveg heiðarlegur og viðurkenna að ég sé ýmsa kosti líka við þetta. Það er alveg rétt, að sjálfsögðu væri þarna miklu öflugri aðili ábyrgur fyrir þessari starfsemi, sem væri Náttúrufræðistofnun Íslands, og það eru ýmis samlegðaráhrif þar á milli. En til þess að maður gæti stutt það þyrfti að vera fyrir hendi góð samstaða um það og það andrúmsloft í kringum það sem ég tel að verði að vera. Meðan það er ekki fyrir hendi legg ég til að menn flýti sér hægt og skoði vandlega allar mögulegar leiðir í þessum efnum. Það er þá alltaf hægt að taka hina endanlegu ákvörðun síðar.