145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

371. mál
[15:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði það ekki áðan að þegar er í gildi samstarfssamningur við náttúrustofu á Norðausturlandi frá 2004. RAMÝ hefur haft víðtæka samvinnu við stofnanir og aðila. Það hefur verið leiðandi markmið hjá þeim að gera það. Það er náttúrulega komið að því að endurnýja það, en það eru samstarfssamningar við einar sjö stofnanir, Veiðimálastofnun, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, vöktunarsamstarf við Líffræðistofnun HÍ, Líf- og umhverfisvísindastofnun, samstarfssamningur við Hólaskóla og náttúrustofu á Norðausturlandi, viljayfirlýsing RAMÝ og HÍ um samstarf og samstarfssamningur HÍ um gestaprófessorsstofu frá 2011. Þau hafa því verið dugleg og ég endurtek í þriðja sinn: Við vonumst til að við getum eflt og styrkt þetta starf enn frekar. Ég tek undir það með þingmanninum, náttúran við Mývatn þarf á því að halda.