145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[16:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Rétt til að bregðast við nokkrum athugasemdum varðandi rúmmálsregluna er tilfellið að það eru einstaka tilvik sem koma upp á ári hverju. Þarna finnst mér álitamálið í raun vera hvort við hefðum átt að ganga lengra en lagt er til hér, að fella regluna alfarið niður, sem mér fannst líka koma til álita. Það er ekki vegna þeirra sem eiga stórar fasteignir og vilja koma þeim í verð, heldur miklu frekar og fyrst og fremst vegna þeirra sem fá slíkar eignir í arf með einhverjum hætti yfir æviskeiðið, eignast fleiri en eina fasteign og lenda í allnokkru hærra skattþrepi, fara úr því að vera í skattfrjálsri sölu yfir í það að þurfa að greiða tekjuskatt. Það getur verið tilviljunum háð að fólk hafi tekið fasteign í arf en ekki eign í einhverju öðru formi. Ég nefni það til íhugunar varðandi framkvæmd reglunnar.

Um tryggingagjaldið vil ég meina að það sé góð framför að ýta eftir því að mönnum sé tryggður þessi réttur. Þarna hygg ég að um sé að ræða breytingu sem vinnumarkaðurinn hafi í þó nokkurn tíma kallað eftir. Það má velta fyrir sér hvort ganga eigi lengra og ég hef ekki skoðað það sérstaklega varðandi tímamörkin sem spurt er um.

En um síðasta atriðið, sem er skattálagningin, tek ég undir að það er framför að við skulum vegna rafrænna framtalsskila komast í stöðu til þess að flýta álagningardeginum. Það er jákvætt fyrir starfsfólk ríkisskattstjóra sem fram til þessa hefur þurft að vinna síðustu handtökin við álagningu yfir hásumarið. Í framtíðinni gæti það leitt til þess (Forseti hringir.) að innheimtan mundi breytast, en það verður ekki fyrst um sinn.