145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[16:10]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um þetta mál en hlustaði af athygli á hæstv. fjármálaráðherra og hv. 4. þm. Norðaust., Steingrím J. Sigfússon, ræða það mál sem hér er. Þetta er stór og mikill bandormur og lagfæring á ýmsum lögum. Það verður mikið verk hjá efnahags- og viðskiptanefnd að fara í gegnum það.

Mér finnst við fyrstu yfirferð á frumvarpinu mjög margt til bóta sem lagt er til. Tökum sem dæmi að skattkort á pappír séu lögð niður og gerð rafræn. Það er alveg sjálfsagt mál og glæsilegt. Ég tek undir það sem hér var sagt áðan um hamingjuóskir til ríkisskattstjóra fyrir frábæran hugbúnað varðandi skattframtöl og allt hvað það varðar. Allt það sem snýr að ríkisskattstjóra varðandi skuldaleiðréttinguna, þó að okkur hafi greint á um hana sem slíka, var alveg frábærlega vel útfært og okkur til mikillar fyrirmyndar hér og sýnir hvað ríkisskattstjóri er framarlega varðar hvað hin rafrænu skilaboð, samskipti og álagningu og fleira.

Hér er sem sagt álagning á einstaklinga færð fram um einn mánuð. Það er kannski aðaltilefni þess að ég kem hér upp og spyr hæstv. fjármálaráðherra út í málið, ef hann getur svarað mér þegar hann heldur seinni ræðu sína um það sem hér hefur komið fram. Ég spyr: Var það skoðað við gerð frumvarpsins og umræður um allar þær breytingar sem hér eru lagðar til, að skipta á dagsetningum hvað varðar lögaðila og einstaklinga þannig að skiladagur lögaðila yrði færður framar? Það hefur svo oft komið upp í huga minn í atvinnuveganefnd, sem ég sit í, þegar menn ræða um veiðigjöld. Þá er það þannig að Hagstofa tekur gögnin saman og þau koma seint því að framtalsskilin eru ekki fyrr en 1. október, ef ég man rétt, og álagning. Þá tekur það langan tíma að vinna þau nauðsynlegu gögn sem í nútímasamfélagi eiga að vera uppfærð nánast til dagsins í dag eða þegar skilin eru. Þetta er allt orðið svo fullkomið og flott. Það kann að vera, svo ég viðri efasemdir mínar um það, að við mundum setja allt á annan endann hjá bókhöldurum og endurskoðunarfyrirtækjum þessa lands, en ég nefni það út af umræðunni um það og af því að við sjáum hvað öllu hefur fleygt fram við ársuppgjör fyrirtækja og endurskoðun. Við sjáum kannski niðurstöður reikninga ýmissa stórfyrirtækja hér í landinu þess vegna í kringum 20. janúar. Þá fara menn að birta niðurstöður sínar, sem er náttúrulega rosalega glæsileg frammistaða, vegna þess að í hinum rafræna heimi er þetta gert allt saman dags dato, ef svo má að orði komast.

Ég spyr út í þetta atriði auk þess sem ég fagna ýmsu sem hér hefur komið fram.

Mig langar líka að spyrja út í annan þátt. Þarna er farið í útborgun vaxta- og barnabóta og gerðar breytingar á henni sem leiða af því að álagning er færð fram um einn mánuð. Hefur hæstv. ráðherra látið skoða hvort við ættum að stíga skrefið til fulls, að vaxtabætur yrðu hreinlega greiddar inn á höfuðstólinn og færu beint í að lækka viðkomandi húsnæðisskuld? Á móti kemur að þeir peningar verða þá ekki notaðir í eitthvað annað. En það hefur oft verið rætt, þetta var gert við skuldaleiðréttinguna, hún fór beint inn á höfuðstól. Það væri athyglisvert að heyra um það hjá hæstv. ráðherra.

Það eru nú ýmis fleiri atriði sem vert er að spyrja út í en mér sýnist að frumvarpið ætti ekki að valda miklum ágreiningi en veldur ábyggilega höfuðverk hjá alþingismönnum í efnahags- og viðskiptanefnd þegar þeir fara í gegnum það. Allt í lagi með það. Þeir leysa það vel af hendi eins og allt annað.

Það eru ýmis atriði hér sem ég þekki bara ekki og hef ekki kynnt mér og nokkur atriði sem ég ætla ekki að fara út í, en ég vona að þau séu öll til bóta.

Að sama skapi fagna ég því sem fram kemur í 12. lið þar sem lagt er til að lágmarksfjárhæð sem innheimt er vegna þinggjalda verði hækkuð úr 2.000 kr. í 5.000 kr., sem er alveg sjálfsögð leið og við höfum oft heyrt fólk lýsa því þegar það fær innheimtukröfu upp á þessar 2.000 kr. Ætli ríkissjóður borgi ekki töluvert háar upphæðir fyrir innheimtuna? Ég held að þetta sé líka til bóta og í takt við það sem er að breytast í landinu.

Sérstaklega er hnykkt á rétti tollstjóra til að afla farþegaupplýsinga og lagt til að honum verði heimilt að beita stjórnvaldssektum ef upplýsingagjöf reynist ófullnægjandi. Um 18. lið er töluvert langur kafli í frumvarpinu þar sem fjallað er um hvað alþjóðasamfélagið, lönd sem við berum okkur saman við, í þessu tilfelli lönd í Evrópu, færir sig meira í átt til þess að fá farþegaupplýsingar. Við sjáum það þegar við fylgjumst með fréttum í heiminum. Þetta er nauðsynlegt eftirlit, alveg sama hvort það er í skipum eða flugvélum. Þarna er verið að leggja til að fara þá leið sem mjög mörg Evrópulönd fara nú. Það er óhætt að fullyrða að Bandaríkjamenn hafa gert það til fjölda ára. Eflaust hafa margir velt fyrir sér hvernig fara eigi með svona persónuupplýsingar. En ég trúi því og treysti að það hafi verið skoðað mjög vel hvað það varðar, að það sé þannig að slíkar upplýsingar geti ekki farið af stað, en þær eru nauðsynlegar fyrir stjórnvöld til að auka öryggi farþega og landa. Þetta er einn af þeim nauðsynlegu þáttum sem við þurfum að huga að og höfum verið áminnt svo ískyggilega um undanfarna daga, vikur og mánuði í heiminum þar sem ýmsir miður góðir einstaklingar reyna jafnvel að smygla sér um borð í slík för og geta valdið farþegum og öðrum miklu tjóni út af vitleysisgangi, liggur mér við að segja.

Að lokum fagna ég uppfærslu til verðlagsþróunar sem verið hefur í landinu. Lagt er til að hlutfall af tekjum af atvinnurekstri, sem ekki má fara yfir við frádrátt einstakra gjafa og framlaga til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknastarfa, verði hækkað úr 0,5% í 0,75%. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það hefði eitthvert tekjutap í för með fyrir ríkissjóð, en það kæmi þeim til góða sem þæðu gjafirnar, hvort sem um er að ræða kirkjufélög, félagasamtök eða aðra. Ég vil bæta við það og segja: Það gerir þá fyrirtækjunum líka kleift að gefa aðeins meira.

En stærsta spurning mín var um lögaðilana og framtalsfrestinn: Hefur það verið skoðað? Að öðru leyti vil ég segja, herra forseti, að það er ánægjulegt að fram komi fleiri frumvörp sem við fyrstu sýn og 1. umr. virðist ríkja mikil og víðtæk sátt um.