145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Komið hefur verið inn á nokkur álitamál og allt satt sem sagt hefur verið, að málið kallar eflaust á einhverja skoðun í nefndinni sem getur orðið tímafrek, en þó er fjöldi atriða í frumvarpinu tæknilegar breytingar sem auðveldlega ætti að vera hægt að ná sátt um. Það eru mörg atriði en ekki mjög flókin. Einstök atriði kalla eflaust á einhverja skoðun.

Í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Kristjáns Möllers, var sérstaklega vikið að nokkrum þáttum. Spurt var um hvort hægt væri að færa álagningu lögaðila fram fyrir einstaklinga. Ég er ekki sérfróður um það atriði en veit þó að það eru þættir í uppgjöri fyrirtækja sem kalla á töluvert mikla vinnu á fyrri hluta ársins. Ég tel það ólíklegt að raunhæft sé á Íslandi að flýta skattskilum lögaðila svo mjög inn á árið að skattskilin miðist við sömu tímasetningu og við höfum vanist fyrir einstaklinga. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það geta verið miklir hagsmunir fyrir ríkið að ljúka álagningunni sem fyrst fyrir báða þessa hópa, einstaklinga og lögaðila, vegna þess að það ætti að geta flýtt innheimtunni. Það bætir aftur sjóðstreymið fyrir ríkissjóð, að minnsta kosti í það skiptið sem breytingin á sér stað og í framtíðinni eftir það. Það er líka í þágu allra sem þurfa að treysta á skattframkvæmdina að hlutirnir gangi eins hratt fyrir sig og mögulegt er.

Vikið var að því hvort við hefðum skoðað það að vaxtabætur mundu renna beint inn á höfuðstól lána. Það var ekki skoðað sérstaklega í tengslum við þetta mál en ég hef oft velt því fyrir mér. Ég tel að við ættum að skoða slíka hluti í stærra samhengi, í samhengi við húsnæðisstuðninginn almennt og í tengslum við þær breytingar sem við höfum verið að gera og munum mögulega gera á komandi árum á húsnæðisstuðningi í þessu landi. Í nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem við höfum birt á heimasíðu fjármálaráðuneytisins, leggur sjóðurinn til að við hverfum alfarið frá vaxtabótafyrirkomulaginu og leggjum meiri áherslu á stuðning með öðrum hætti. Til dæmis með útgreiðanlegum persónuafslætti og hækkun hans á móti öðrum ráðstöfunum.

En varðandi þá hugmynd að greiða vaxtabætur inn á höfuðstól tel ég að hún sé góð í því skyni að auka sparnað. Á hinn bóginn má segja að það geti litið dálítið einkennilega út gagnvart þeim sem þiggur bæturnar að eftir að hann hefur greitt vextina fái hann ekki þá fjármuni til sín sem ætlaðir voru til að létta honum vaxtagreiðsluna heldur renni þeir beint inn á lánið. Það kann að vera skynsamlegt til lengri tíma til að auka sparnað, eins og ég segi, og til að tryggja að sú ívilnun, sú fyrirgreiðsla, sá stuðningur nýtist til að afla húsnæðisins. En það væru þá varla lengur vaxtabætur heldur einhver önnur tegund húsnæðisstuðnings. Vaxtabætur eru í grunninn hugsaðar sem bætur til þess sem orðið hefur fyrir miklum vaxtakostnaði og það sem hann hefur lagt út fyrir þeim kostnaði hefur fram til þessa verið talið sanngjarnt að viðkomandi fái þá endurgreitt með beinni greiðslu vaxtabótanna. Ég nefni það sem innlegg í umræðuna um það hvernig væri best að ráðstafa þessum stuðningi og vil fyrir mitt leyti halda því opnu að við færum okkur frá vaxtabótakerfinu inn í ný kerfi sem yrðu frekar til þess fallin að hvetja til eiginfjársöfnunar í tengslum við fasteignakaup á meðan vaxtabótakerfið hefur í gegnum tíðina sætt gagnrýni fyrir að vera skuldahvetjandi.

Minnst var á innheimtufyrirkomulagið. Við höfum fram til þessa gert það mögulegt að skipta eftirstöðvum þinggjalda sem eru umfram 2.000 kr., en með breytingunni sem felst í frumvarpinu verður ekki minni fjárhæðum en 5.000 kr. skipt milli gjalddaga. Það er sjálfsögð og eðlileg breyting. Ég tel að enginn ágreiningur verði um það í þinginu.

Að öðru leyti tel ég mig hafa farið yfir helstu atriði frumvarpsins. Það eru nokkur framfaramál í þessu, nokkur tæknileg atriði. Sjá má af efni frumvarpsins að sum þessara ákvæða eru eftir ákall innan úr framkvæmdinni, þ.e. kallað er eftir ákveðnum breytingum frá tollstjóra og frá ríkisskattstjóra sem upp koma í samskiptum þessara yfirvalda við skattgreiðendur og þá sem samskipti eiga við tollyfirvöld. Í bland eru þar atriði sem lengi hafa verið í kerfinu eða tengjast þeirri stefnumörkun sem ég vil beita mér fyrir.

Nú gengur málið til nefndar og ég óska henni góðs í þeim verkum sem bíða hennar og býð fram alla aðstoð og stuðning ef óskað er eftir við að skýra einstök ákvæði nánar.