145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framganga formanns fjárlaganefndar gagnvart forstjóra Landspítalans.

[15:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Um fundarstjórn á Alþingi á þetta að gilda. Þegar forstjóri Landspítalans, þjóðarsjúkrahússins, kemur til þingsins og greinir frá því hvaða áhrif fjárhagsstaðan mun hafa á spítalann þá á að taka á móti honum af kurteisi. Hann á ekki að þurfa að sæta því að formaður fjárlaganefndar fari út með opinberar yfirlýsingar um andlegt ofbeldi og annað þess háttar.

Virðulegur forseti. Framganga formanns fjárlaganefndar gagnvart forstjóra Landspítalans er með öllu óþolandi. Þetta er ekki hægt, virðulegur forseti. Það er grundvallaratriði að þeir trúnaðarmenn sem við höfum falið rekstur Landspítalans geti komið hér með upplýsingar, reitt þær fram og þær sé hægt að ræða á málefnalegan hátt, jafnvel þótt skiptar skoðanir geti verið um upplýsingarnar. En að sú umræða sé dregin niður á þetta plan og niður í þetta, ég vil leyfa mér að segja persónulega skítkast, setur blett á þingið allt og störf þess.

Virðulegi forseti. Ég mótmæli þessari framgöngu eindregið og (Forseti hringir.) undrast það að þingmaður sem lýsti því yfir í kosningabaráttunni að hún hygðist (Forseti hringir.) beita sér fyrir þjóðarsátt um Landspítalann (Forseti hringir.) skuli leyfa sér að ganga fram með þessum hætti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)