145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framganga formanns fjárlaganefndar gagnvart forstjóra Landspítalans.

[15:05]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Helga Hjörvars og gera alvarlegar athugasemdir við framkomu formanns fjárlaganefndar. Ég vil auk þess að það komi fram á þingfundinum að þessi uppákoma á fundi fjárlaganefndar á föstudaginn var og eftirmálinn, m.a. í kvöldfréttum Stöðvar 2 nú um helgina þar sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir talaði um andlegt ofbeldi, var fundarefni áðan á fundi þingflokksformanna. Þar gerðu þingflokksformenn, sú sem hér stendur og hv. þm. Helgi Hjörvar, athugasemdir við framkomu þingmannsins. Við teljum hana fyrir neðan allar hellur og óskum jafnframt eindregið eftir því að forseti taki á málinu með einhverjum þeim hætti að viðunandi sé þar sem um er að ræða virðingu þingsins alls sem setur niður svo eftir er tekið þegar þau orð eru viðhöfð sem hér er vísað í. Ég óska eftir því að hæstv. forseti bregðist við hið fyrsta.