145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framganga formanns fjárlaganefndar gagnvart forstjóra Landspítalans.

[15:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil undir þessum lið þakka þingflokksformönnum fyrir að hafa tekið málið upp við forseta. Það var að beiðni minni hluta fjárlaganefndar sem stjórnendur Landspítalans komu á fund nefndarinnar. Þau gáfu okkur mjög mikilvægar upplýsingar sem við þurfum að nota til að mynda tillögur okkar. Ég trúi að upplýsingarnar hafi bæði verið gagnlegar fyrir hv. þingmenn minni hlutans og meiri hlutans og mér þykir mjög leitt að þessi beiðni okkar, um að fá að ræða um vanda þjóðarsjúkrahússins, hafi valdið slíkum usla og þeim stóru orðum sem hafa fallið. Það er ekki gott fyrir virðingu Alþingis og það er slæmt ef við getum ekki hlýtt á óskir og útskýringar stjórnenda þjóðarsjúkrahússins þegar það á í vanda.