145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framganga formanns fjárlaganefndar gagnvart forstjóra Landspítalans.

[15:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við hér á Alþingi förum með völd og við höfum líka áhrif og þurfum að gæta þess með hvaða hætti við notum þessi völd og þessi áhrif. Þegar fulltrúar Landspítalans koma á fund fjárlaganefndar og óska eftir hærri fjárheimildum — vegna skorts á nauðsynlegu viðhaldi á sjúkrahúsinu og vegna þess að það vantar aukið fjármagn inn í rekstrargrunn sjúkrahússins — þá eru þeir einstaklingar ekki að þjóna lund sinni, þeir eru þarna fyrir hönd íslensks almennings til að standa vörð um bráða- og lífsbjargandi starfsemi sjúkrahússins. Það er algjörlega ólíðandi að fólk þurfi í kjölfarið að sitja undir skætingi eins og hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, hefur haft í frammi. Ég fer fram á að forseti tali við hana og hún biðjist afsökunar á þessum ummælum sínum.