145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framganga formanns fjárlaganefndar gagnvart forstjóra Landspítalans.

[15:15]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég harma þessa umfjöllun um þetta mál. Mér finnst þetta eiginlega hafa snúist upp í andhverfu sína. Ég sat þennan fund og ég verð að segja að það er greinilegt að menn upplifa svona fundi hver með sínum hætti. Ég veit ekki betur en að fyrir fjárlaganefnd fari fram hreinskiptin skoðanaskipti, að menn tali af hreinskilni um vandamálin og reyna að finna lausn á þeim.

Umræddum fundi stjórnaði varaformaður fjárlaganefndar alla vega að stórum hluta. Fundurinn var haldinn þegar umferðarteppur voru hér um allan bæ og menn voru frekar seinir (Forseti hringir.) fyrir og úrillir kannski. Og það átti við um fleiri aðila í þessu máli. Þannig að ég skora á fólk, fleiri fundarmenn, að tjá(Forseti hringir.) upplifun sína af fundinum. En ég veit alla vega að ég tala fyrir nokkuð fleiri aðila.