145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

markmið Íslands í loftslagsmálum.

[15:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Jú, ég er sammála því að við getum gert betur. Við eigum að setja okkur metnaðarfull markmið til að bæta umgengni við náttúruna. Við skulum ekki staðsetja okkur á vitlausum stað í umræðunni gagnvart umheiminum. Meginógnin sem stafar af mannkyninu vegna gróðurhúsalofttegunda á ekki uppsprettu sína á Íslandi, hún á uppsprettu sína í öðrum heimshlutum, kannski ekki hvað síst í Kína. Þetta þarf að vera með í umræðunni.

Síðan þegar við ræðum um stöðuna á Íslandi í dag og hvernig við viljum nálgast þessi mál í nútíð og framtíð þá er líka mikilvægt að við höfum heildarsamhengi hlutanna hér heima fyrir á hreinu eins og til dæmis það að einkabíllinn er ekki uppspretta vandans. Hann er hluti af vandamálinu, en þar hafa líka á undanförnum árum orðið stórstígar framfarir. Það sjáum við af því hvað vélar eru orðnar miklu sparneytnari og, eins og hv. þingmaður nefnir, rafbílar eru að opna nýja möguleika, nýja heima.

Í nýlegu svari frá umhverfisráðuneytinu til hv. þm. (Forseti hringir.) Sigríðar Andersen kom fram að endurheimt votlendis feli í sér töluvert miklu meiri tækifæri en allar aðgerðir (Forseti hringir.) sem mundu beinast að einkabílnum. Ræðum þetta heildarsamhengi aðeins dýpra hér á þinginu.