145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

loftslagsmál.

[15:26]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að taka áfram þennan þráð um loftslagsmálin sem er stærsta viðfangsefni okkar sem hér erum og alls heimsins. Auðvitað eru þau í brennidepli núna út af loftslagsráðstefnunni í París, en þetta er stærsta viðfangsefnið og snýst um það hvernig við getum búið börnunum okkar og barnabörnum framtíð og hvað við getum lagt af mörkum til þess.

Hér var farin loftslagsganga í gær eins og hæstv. ráðherra er væntanlega kunnugt. Þar voru settar fram þrjár kröfur. Í fyrsta lagi að Ísland eitt og sér dragi úr losun um 40% sem er í takt við það sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt á alþjóðavettvangi. Í öðru lagi að Ísland stefni að því að verða kolefnishlutlaust land, aftur í takt við það sem hæstv. forsætisráðherra hefur sagt á alþjóðavettvangi. Og í þriðja lagi að horfið verði frá áformum um olíuvinnslu.

Nú er staðan í heiminum þannig að þrátt fyrir öll þau metnaðarfullu markmið sem hafa verið sett er notkun óendurnýjanlegra orkugjafa á uppleið, hvort sem við horfum til olíu, kola eða gass. Þessi orkunotkun eykst. Bara í síðustu viku var hér á ferð fulltrúi frá áströlskum umhverfisverndarsamtökum sem benti á að til standi að opna stórar, nýjar kolanámur í Ástralíu. Það er ætlunin að selja kolin á útsölu því að þetta verður óvinsælli orkugjafi eftir því sem fram líður þannig að það á að reyna að nýta þennan orkugjafa núna þrátt fyrir að við vitum um afleiðingarnar. Þess vegna getur yfirlýsing um að Ísland ákveði að íhuguðu máli að hverfa frá olíuvinnslu haft áhrif. Þó að við séum smáþjóð, þó að við berum ekki mikla ábyrgð á stóra samhenginu, sem er hárrétt, gæti slík yfirlýsing haft áhrif. Hún gæti sent umheiminum mikilvæg skilaboð um að það sé mikilvægt að við hverfum frá þeirri orkustefnu sem hefur verið við lýði. Endurnýjanlegir orkugjafar eru því miður afskaplega lítill (Forseti hringir.) hluti af því sem við erum að nýta.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hún sammála þeim þremur markmiðum sem sett voru fram sem kröfur loftslagsgöngunnar í gær?