145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Já, það ætti að vera auðvelt að samsinna þeirri ályktun að íslenska krónan í höftum geti ekki verið framtíðarlausn á gjaldmiðilsmálum okkar. Þess vegna erum við að vinna að því að aflétta höftunum. Við erum komin fram með trúverðuga áætlun sem hefur leitt til þess að lánshæfismat ríkisins hefur hækkað og annarra stórra fyrirtækja á landinu sömuleiðis og við erum á góðri leið með að ryðja brautina fyrir haftaafnámið.

Þetta með gjaldmiðilsmálin er hins vegar mjög stór og mikil umræða. Ég ætla ekki að segja að hún sé svo stór að það sé ekki hægt að tæma hana í þingsal en það þarf að hyggja að mörgu. Ég ætla til dæmis að vekja athygli hv. fyrirspyrjanda á því sem Paul Krugman prófessor skrifaði nýverið þar sem hann bendir á að valið um gjaldmiðil snúist meðal annars um það hvernig menn vilja fara í gegnum krísur. Hann leiðir að því rök að með því að Ísland hafi haft sjálfstæðan gjaldmiðil en Írar sameiginlegan gjaldmiðil með evrusvæðinu hafi aðlögunin eftir hrunið verið okkur miklum mun auðveldari. Þetta er hluti umræðunnar um gjaldmiðil.

Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi eitthvað alveg sérstaklega mikið til að koma til að menn gefi frá sér þá hagstjórnarmöguleika sem felast í sjálfstæðum gjaldmiðli vegna þess að með sjálfstæðum gjaldmiðli eru menn ávallt að verja frekar störfin. Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að menn eigi að skoða valmöguleika í þessum efnum út frá styrkleika. Þess vegna finnst mér það eins og sakir standa hljóta að vera meginviðfangsefni okkar að taka til í eigin ranni, greiða niður skuldir, tryggja afgang á ríkisfjármálum og opinberum fjármálum almennt, stuðla að jöfnuði í viðskiptum við útlönd og þannig sækja fram til sterkari stöðu sem (Forseti hringir.) á endanum mun leiða til þess að ef menn vilja í framtíðinni gera breytingar tökum við þær breytingar út frá styrkleika. Eins og sakir standa tel ég okkur ekki hafa í raun og veru annan möguleika en krónuna og við getum vel náð árangri með henni eins og við höfum sýnt.