145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

hækkun bóta almannatrygginga.

[15:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Á yfirstandandi ári hefur verið samið um laun og starfskjör bæði á almennum vinnumarkaði og við opinbera starfsmenn sem ríkisstjórnin hefur leitt eða hefur verið leitt til úrskurðar með gerðardómi. Kjararáð taldi sem sagt um miðjan nóvember allar meginlínur skýrar og að ráðið gæti þar með úrskurðað samkvæmt lögum og það gerði kjararáð með úrskurði um laun forseta, dómara, ráðherra, þingmanna, stjórnenda ríkisstofnana og einhverra fleiri um 9,3% hækkun — afturvirkt.

Þá kem ég að því sem ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í. Í fjárlögum núna kemur fram að ríkisstjórnin ætlar ekki að sjá um að hækka bætur almannatrygginga til aldraðra og öryrkja afturvirkt eins og allir kjarasamningar fjalla um, eins og ég gat um áðan. Þeir verða einir skildir eftir þetta ár sem fá ekki þessar kjarabætur, heldur eru þær hugsaðar frá 1. janúar á næsta ári. Það er tilefni þess að ég kem hér upp. Mér finnst að á þessu ári, þegar við erum með fjáraukalög í þinginu sem sýna sem betur fer 22 milljarða kr. afgang á þessu ári, að við eigum að sjá sóma okkar í því að bæta kjör lífeyrisþega, öryrkja og annarra — afturvirkt eins og allir samningar hljóða upp á.

En það er ekki gert og þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Eigum við ekki að sameinast hér á Alþingi um að kippa kjarabótum til aldraðra og öryrkja í liðinn afturvirkt eins og allir aðrir fá á þessu ári? Hvers vegna eiga þeir einir að sitja eftir?