145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

hækkun bóta almannatrygginga.

[15:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Taki menn ákvörðun um að hækka á miðju ári mun það leiða til þeim mun minni hækkunar um næstu áramót. Við erum alltaf að horfa á verðlag annars vegar og hins vegar launaþróun. Við höfum í lögum tryggt bótaþegum rétt til þess að njóta hækkunar til samræmis við það af þessu tvennu sem hækkar meira. Ef við tökum hluta af þeirri hækkun út á miðju ári er minna eftir til þess að leiðrétta um áramótin. Við erum almennt að framkvæma þetta þannig að breytingin verði um áramót og eins og ég rakti áðan er hækkunin sem verður um næstu áramót þannig að við verðum komin fram úr launahækkunum í janúar borið saman við þá kjarasamninga sem hafa verið gerðir á þessu ári.

Ég skal taka þátt í umræðu um það ef menn vilja gera þetta þannig að við förum að gera þetta oftar á árinu, að láta það ekki einungis gerast um áramót, sem í sjálfu sér er bara framkvæmdalegt (Forseti hringir.) atriði, en það er ekki hægt að taka þessa umræðu þannig að með því séu menn að missa af einhverju. Við erum að tryggja að öll hækkunin skili sér, þetta er bara spurning um hvenær á árinu það gerist.