145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

þunn eiginfjármögnun.

364. mál
[15:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Sambærileg fyrirspurn kom fram á 144. löggjafarþingi á þskj. 708 í 460. máli. Í svari ráðherra við þeirri fyrirspurn kom fram að ráðuneytið fylgdist grannt með sérstöku verkefni sem unnið er á vegum OECD undir enska heitinu Base Erosion and Profit Shifting sem á íslensku gæti lagst út sem rýrnun og tilfærsla skattstofna. Sú vinna miðar meðal annars að því að leita leiða til að hamla gegn misnotkun skattareglna til undanskota frá skatti, þar með talið óhóflegum eða jafnvel óeðlilegum frádrætti vaxtakostnaðar.

Þessari vinnu OECD lauk í október síðastliðnum með útgáfu á 15 mismunandi aðgerðaáætlunum sem er að finna í jafn mörgum skýrslum. Þessar skýrslur má allar nálgast á heimasíðu OECD. Nú er það verkefni allra aðildarríkja OECD að gera ráðstafanir til að aðlaga sig framangreindum aðgerðaáætlunum sem í mörgum tilvikum kalla á lagabreytingar heima fyrir og er Ísland þar ekki undanskilið. Sú aðgerðaáætlun eða skýrsla sem snýr sérstaklega að þunnri eiginfjármögnun eða takmörkunum á vaxtafrádrætti er gefin út undir því sem við gætum sagt á íslensku um hvernig draga ætti úr rýrnun skattstofna með takmörkun á frádrætti vaxta og annarra fjármagnstengdra gjalda, svo ég sleppi mér við að fara með enska heitið. Þessar upplýsingar liggja núna fyrir, komu út fyrir nokkrum vikum. Þegar er hafin vinna hjá sérfræðingum ráðuneytisins við að fara yfir allar þessar aðgerðaáætlanir OECD og við gerum ráð fyrir að vinnan verði fyrirferðarmikil á komandi ári.

Í þessu samhengi ber líka að hafa í huga að náið samráð verður haft annars staðar á Norðurlöndunum um áform þeirra varðandi þessi mál, einkum á sviði vaxtafrádráttar, og einnig varðandi útvíkkaðar reglur á sviði milliverðlagningar, enda brýnt að íslensk fyrirtæki búi við svipaðar reglur og gilda í nágrannalöndunum. Þess er þó vart að vænta að frumvarp um mögulega takmörkun vaxtafrádráttar eða þunna eiginfjármögnun liggi fyrir á þessu þingi nema þá til kynningar.

Að gefnu tilefni er hins vegar vert að rifja upp að íslensk tekjuskattslög innihalda nú þegar mikilvæg ákvæði. Í 57. gr. tekjuskattslaganna eru ákvæði fyrir skattyfirvöld þegar um er að ræða óvenjulega skilmála í viðskiptum, þar með talið milliverðlagningu eða óeðlilega vaxtaskilmála, ákvæði sem unnt er að beita ef skatteftirlit eða skattrannsókn leiðir eitthvað óeðlilegt í ljós við skoðun á skattskilum fyrirtækja. Með öðrum orðum má gefa sér að milliverðlagning, lánaviðskipti og vaxtakjör innan samstæðna séu almennir þættir í hefðbundnu eftirliti skattyfirvalda á skattframtölum fyrirtækja á hverjum tíma. Það breytir því þó ekki að við ættum að taka þessi nýju viðmið, þessar aðgerðaáætlanir, til sérstakrar skoðunar. Þetta er einn angi af mörgum sem skipta miklu varðandi alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi fyrir atvinnustarfsemi en líka skattumhverfi fyrir yfirvöld til að tryggja að menn nýti sér ekki glufur og holur í ólíkri skattlagningu ríkja í milli til að hámarka hagnað sinn á kostnað þeirra sem þurfa á að halda eðlilegum framlögum, þátttöku fyrirtækjanna, til að standa undir samfélagslegum kostnaði. Þetta er mjög lifandi umræða, ekki bara vegna þunnrar eiginfjármögnunar eða þessa vaxtakostnaðar sem oft hefur verið til umræðu hér heldur draga lönd til sín, jafnvel yfir Atlantshafið, alþjóðlegar fyrirtækjasamstæður með skattareglunum. Nú síðast sjáum við að samruni Pfizers og Allergans veldur því að í Bandaríkjunum eru menn mjög hugsi yfir því að fyrirtækið sem er með svo umfangsmikla starfsemi þeim megin Atlantshafsins skuli, af skattalegum (Forseti hringir.) ástæðum fyrst og fremst, ætla að koma sér fyrir á Írlandi.