145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

þunn eiginfjármögnun.

364. mál
[16:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Fyrst varðandi frumvarpið vil ég segja að sú vinna er yfirstandandi hjá embættismönnum í ráðuneytinu. Ég hef lagt áherslu á að þessi mál verði skoðuð ofan í kjölinn og að við bregðumst við ábendingum um það sem betur mætti fara í okkar löggjöf til að samræma aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að lágmarka hættuna á undanskotum af þessu tagi. Í raun erum við að tala um fyrirkomulag sem alþjóðleg fyrirtæki hafa reynt að beita til að koma sér undan því sem við gætum kallað eðlilega skattlagningu.

Ég tek fram að mér finnst að á vegum OECD hafi verið unnið mjög merkilegt starf á undanförnum árum, m.a. einmitt á sviði upplýsingaskipta. Ég undirritaði fyrir ekki löngu samning fyrir okkar hönd um að við tækjum þátt í upplýsingaskiptum á sviði skattamála til að þrengja enn frekar að þeim sem vilja skjóta sér undan heilbrigðri og eðlilegri skattlagningu. Til að svara þeirri spurningu tel ég að við eigum áfram að vera opin fyrir upplýsingaskiptum af þeim toga.

Hins vegar eru undirliggjandi tveir heimar að takast á. Þá er ég að tala almennt um skattlagninguna. Annars vegar er sá heimur sem segir að það þurfi að halda áfram að samræma endalaust þar til allri skattalegri samkeppni hefur í raun verið eytt út og hins vegar sá heimur sem segir að það sé heilbrigt, eðlilegt, sanngjarnt og jafnvel fallið til efnahagslegra framfara að lönd keppi á skattasviðinu. Ég hallast að þeirri kenningu, ég hallast að þeim skóla að það sé sjálfsagt og eðlilegt að lönd keppi sín í milli um hylli fyrirtækja, (Forseti hringir.) m.a. á skattasviðinu, en á hinn bóginn eigi að ríkja fullt gegnsæi og menn eigi að vera með opnar bækur og veita allar upplýsingar sem hægt er. Þannig held ég að við náum mestum efnahagsframförum.