145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

refsingar vegna fíkniefnabrota.

257. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Heiða Kristín Helgadóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Núverandi refsistefna í fíkniefnamálum hefur ekki reynst árangursrík við að draga úr neyslu fíkniefna eða koma neytendum sem vilja bata til aðstoðar. Fólk lendir á sakaskrá fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna sem takmarka mjög atvinnutækifæri þess og ferðafrelsi þess til frambúðar. Rannsóknir sýna að þeir sem eiga við félagsleg, heilsufarsleg eða persónuleg vandamál að etja eru mun líklegri til að verða fíkn að bráð. Gríðarlega mikilvægt er því að líta á fíkniefnaneyslu sem velferðar- og heilbrigðismál. Gera þarf neytendum kleift að leita sér aðstoðar án ótta við háar sektir eða skert lífstækifæri. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lagði til fyrir stuttu að afglæpavæða einkaneyslu á fíkniefnum og í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna er mælst til þess sama. Þessi leið hefur verið farin í mörgum löndum og sífellt bætist í hóp þeirra landa sem afglæpavæða einkaneyslu fíkniefna og er niðurstaðan ávallt jákvæð.

Á málþingi íslenskra félagsfræðinga 8. apríl 2014, sem bar yfirskriftina Fíkniefnalöggjöfin og kostir í stefnumótun, refsistefna eða afglæpavæðing, sagði hæstv. heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, að sú refsistefna sem ríkjandi hefur verið á Íslandi hafi ekki borið þann árangur sem viðunandi þykir. Sagði hann það siðferðislega skyldu okkar að endurskoða stöðu mála og leita gagnreyndra og nýrra leiða til að takast á við ólöglega fíkniefnanotkun.

Mig langar til að hnýta aðeins ofan á gamlar spurningar mínar til hæstv. innanríkisráðherra, hvort hún sé sammála flokksbróður sínum um þessa skoðun. Enn fremur langar mig að benda á að í skýrslu Fangelsismálastofnunar frá 2009–2011 kemur fram að að meðatali eru 31,8% brota sem eru tilefni fangelsisvistar hér á landi fíkniefnabrot. Þannig er stærstur hluti brota á Íslandi fíkniefnabrot. Þetta hlutfall hefur hækkað þó nokkuð á síðustu tíu árum og farið úr 25% árið 2000 og upp í þessi 30%.

Því endurtek ég spurningu mína sem var lögð hér fram fyrir nokkru hvort ráðherra hyggist endurskoða refsilöggjöf í fíkniefnabrotum. Eins langar mig að beina spurningu til ráðherra varðandi burðardýr, hvort eitthvað sé í skoðun hjá ráðuneytinu varðandi aðstæður og mögulega aðstoð sem burðardýr veita í fíkniefnamálum og kalla fram skoðanir hennar á þessum málaflokki sem ég held að við þurfum að taka til gagngerrar endurskoðunar.