145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

refsingar vegna fíkniefnabrota.

257. mál
[16:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp. Hún spyr tveggja spurninga; hvort ráðherra hafi hug á því að taka til endurskoðunar löggjöf um refsingar vegna fíkniefnabrota og síðan spyr hún sérstaklega um burðardýr og mildingu refsinga gagnvart þeim. Ég ætla að leyfa mér, hæstv. forseti, að svara þessu sameiginlega, þ.e. að taka þetta umfjöllunarefni og svara því í heild.

Ég held að mjög mikilvægt sé að rifja upp að refsingar við fíkniefnabrotum eru í tveimur lagabálkum. Annars vegar brot vegna almennra hegningarlaga, þar eru oft þessir þyngri dómar, og síðan eru það lög um ávana- og fíkniefni. Almenn hegningarlög eru að sjálfsögðu á ábyrgð innanríkisráðherra, en lög um ávana- og fíkniefni og sá heilbrigðishluti málsins er, eins og hv. þingmaður nefndi, á ábyrgðarsviði heilbrigðisráðherra. Þess vegna skiptir svo miklu máli þegar taka á ákvörðun um hvort endurskoða skuli refsingar vegna brota á löggjöf vegna fíkniefnabrota, þá er ekki nóg að horfa bara til almennra hegningarlaga. Að því leyti til tek ég nefnilega undir það þegar litið er til refsinga að ekki er nóg að líta á þetta mál svona afmarkað út frá refsingunum sjálfum heldur þarf að líta til annarra laga.

Í almennum hegningarlögum er kveðið á um refsingu í fíkniefnabrotum, í 173. gr. a. Ákvæðið er í þeim kafla laganna sem fjallar um brot sem hafa í för með sér almannahættu og er þar með í hópi brota sem valda almannahættu, svo sem að breiða út alvarlega sjúkdóma og/eða valda eldsvoða sem hefur í för með sér almannahættu, svo ég tiltaki ákvæðið í þeim kafla. Brot gegn þessu ákvæði geta varðað allt að 12 ára fangelsi. Í lögum um ávana- og fíkniefni er einnig kveðið á um refsingu í fíkniefnabrotum en þar geta þau varðað allt að 6 ára fangelsi.

Þegar fíkniefnabrot hafa komið upp hefur ýmist verið ákært fyrir brot gegn almennum hegningarlögum eða tilgreindum lögum um ávana- og fíkniefni. Í framkvæmd hefur sú regla mótast að ákært er fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni í smærri fíkniefnabrotum en fyrir brot gegn almennum hegningarlögum í stærri brotum.

Til grundvallar því hvort um stórfellt eða minni háttar brot er að ræða hverju sinni liggur fyrst og fremst magn þeirra efna sem um er að ræða. Þannig er ýmist ákært fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga eða laga um ávana- og fíkniefni eftir því um hve mikið magn er að ræða. Þá er líka mjög mikilvægt að benda á að samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara er heimilt að ljúka málum vegna tiltekinna brota á lögum um ávana- og fíkniefni með lögreglustjórasátt. Það er gert. Slík fyrirmæli voru gefin út í febrúar 2009 og þau eru opinber.

Þegar rætt er um refsingar við fíkniefnabrotum verður að hafa í huga að vandi þessi tengist brotum sem eru að stórum hluta heilbrigðisvandamál. Þetta eru ekki einungis heilbrigðisvandamál þeirra brotamanna sem um ræðir og sjálfir eru í neyslu, heldur snertir fíkniefnabrot heilbrigði margra annarra sem neyta fíkniefna og verða fíkniefnum að bráð, jafnvel á unga aldri. Þannig hefur hættan á neyslu fíkniefna hjá stórum hópi manna og sérstaklega hættan sem steðjar að ungu fólki sem ánetjast fíkniefnum gert það að verkum að litið er á innflutning og framleiðslu þessara efna alvarlegum augum. Vandinn verði því ekki leystur á einfaldan máta með því eingöngu að breyta refsiramma þessara brota.

Í mínum huga verða refsingar við fíkniefnabrotum ekki endurskoðaðar án þess að einnig verði tekinn til skoðunar sá þáttur þessara mála sem telst heilbrigðismál. Því vil ég enn og aftur vekja sérstaklega athygli á þeirri vinnu sem er í gangi á vegum heilbrigðisráðherra um þann starfshóp sem hefur það verkefni að koma með tillögur um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu. Sá starfshópur er enn að störfum. Við vonumst til þess að hann skili niðurstöðum sínum á næstunni og það skiptir máli fyrir vinnu okkar í innanríkisráðuneytinu hvernig við lítum á framhald málsins hvaða niðurstöður koma þar fram. Þess vegna finnst mér ekki hægt á þessum tímapunkti með þá vinnu ókláraða að taka afstöðu til 173. gr. a almennra hegningarlaga.

Ég tel að endurskoðun fíkniefnalöggjafarinnar þurfi að vera vel undirbúin og hún þurfi að byggjast á fleiri atriðum en eingöngu þeim, og ég þreytist ekki á að nefna það, sem snúa að refsirammanum því að þar held ég að við séum að stórum hluta að misskilja þann vanda sem undir liggur ef menn halda að þessi málaflokkur sé þess eðlis að hann verði leystur á grundvelli refsilöggjafar.