145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

lögmæti smálána.

311. mál
[16:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Ég er þeirrar skoðunar að hver og einn eigi að bera ábyrgð á eigin fjármálum og það sé í grunninn það sem á að ganga út frá. Hins vegar hefur komið í ljós hvað varðar þessi smálán og þau fyrirtæki að oft er um að ræða þá sem standa ef til vill höllustum fæti, bæði ungt fólk og aðra sem eldri eru, og að þarna sjái slík fyrirtæki sér hag í því að sækja á þau mið þar sem einstaklingar eru veikastir fyrir og þurfa kannski á mestri aðstoð að halda. Að því gefnu að þannig sé hlutum háttað tek ég undir bæði með hæstv. ráðherra sem og hv. fyrirspyrjanda að við þurfum að kanna lagalega stöðu þess að hægt sé að koma í veg fyrir slíkt.

Í grundvallaratriðum, virðulegur forseti, ber þó hver og einn ábyrgð á eigin fjármálum.