145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

349. mál
[16:44]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessar viðamiklu spurningar varðandi gúmmíkurl úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum og hyggst ég taka fyrir hverja sérstaka spurningu og svara henni.

Fyrsta spurningin var: Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeirri umræðu sem hefur farið fram um notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum?

Ráðuneytið fól Umhverfisstofnun að skoða þessi mál, en við þá skoðun kom í ljós að ýmsar rannsóknir höfðu verið gerðar á notkun kurlaðra gúmmídekkja á gervigrasvöllum í nágrannalöndum okkar. Rannsóknir leiddu meðal annars í ljós að hættuleg efni gætu komist út í umhverfið í einhverju magni gegnum sigvatn frá völlunum við verstu mögulegu aðstæður. Hægt væri að koma í veg fyrir slík áhrif með viðeigandi mengunarvörnum svo og viðunandi frárennsliskerfi. Einnig eru ýmsir áhættuþættir fyrir heilsu tengdar gervigrasvöllum og ber þar að nefna sýkingarhættu, slæm loftgæði og slysahættu sem mikilvægt er að bregðast við. Ráðherra mun því fylgja þessu máli eftir við Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga.

Önnur spurningin var: Hvaða reglur gilda um notkun efna eins og gúmmíkurls á íþróttavöllum og áhrif þeirra á heilsu og umhverfi manna?

Svokölluð REACH-reglugerð er til, hún er nr. 888/2015, um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni og var sett hér á landi árið 2008. Þar er kveðið á um takmarkanir á því er varðar framleiðslu, markaðssetningu og notkun tiltekinna hættulegra efna, efnablanda og hluta og ber að haga meðferð og notkun dekkjakurls á íþróttavöllum í samræmi við þær takmarkanir sem tilgreindar eru í viðaukanum.

Þriðja spurningin: Hvernig er eftirliti Umhverfisstofnunar háttað með notkun efna eins og gúmmíkurls á leik- og íþróttavöllum?

Umhverfisstofnun hefur umsjón með framkvæmd efnalaga nr. 61/2013 og fer með eftirlit með þeim sem er m.a. fólgið í því að upplýsa almenning um hættu tengda notkun á efnum og efnablöndum þegar þörf er til verndar heilsu eða umhverfi og hafa eftirlit með markaðssetningu efna, útbúa eftirlitsáætlun og upplýsa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga um þá þætti sem falla undir lögin. Umhverfisstofnun hefur kallað eftir upplýsingum frá hlutaðeigandi innflytjendum um efnainnihald gúmmíkurls úr dekkjum sem notað er hér á landi. En hafa ber í huga að gúmmíkurlið er innflutt vara og hún er ekki bönnuð. Strax í janúar verður stofnunin með verkefni um efnagreiningar á gúmmíkurli og mun vinna það með Knattspyrnusambandi Íslands varðandi eldra gúmmíkurl.

Hlutverk heilbrigðisnefnda sveitarfélaga samkvæmt efnalögum er meðal annars að upplýsa almenning um hættu tengda notkun á efninu þegar þörf er til verndar heilsu og umhverfi og hafa eftirlit með meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfisskyldri starfsemi sem heyrir undir þau starfsleyfi sem nefndin gefur út á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og upplýsa Umhverfisstofnun um niðurstöður eftirlitsins.

Fjórða spurningin: Mun ráðherra beina því til Umhverfisstofnunar að yfirfara reglur um notkun efna á leik- og íþróttavöllum?

Málið var sérstaklega tekið fyrir á fundi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga með umhverfisráðuneytinu og sjávar- og landbúnaðarráðuneytinu í október 2011. Þá var farið yfir hvað heilbrigðiseftirliti bæri að gera varðandi loftgæði, sótthreinsun og þrif þegar gúmmíkurl er notað á leik- og íþróttasvæðum.

Eins og ég sagði áðan þá er Umhverfisstofnun að fara af stað með verkefni um efnagreiningar á eldra gúmmíkurli og verður það unnið með Knattspyrnusambandi Íslands. Í framhaldi mun stofnunin skoða hvort nauðsynlegt sé að setja sérstakar reglur um notkun efna á leikvallasvæðum og íþróttavöllum. Einnig má geta þess að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa gert frekari kröfur varðandi umgengni við gervigrasvelli sem miða að því að auka öryggi og hollustuhætti fyrir iðkendur, þjálfara og áhorfendur.

Fimmta spurningin: Mun ráðherra beina því til Umhverfisstofnunar að gefa út tilmæli um að notast við hættuminni efni á leik- og íþróttavöllum?

Ráðuneytið hefur þegar rætt þessi mál við Umhverfisstofnun og tekið þátt í umræðum við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir mun Umhverfisstofnun skoða og gefa út almenn tilmæli um að við viðhald gervigrasvalla sem eru með gúmmíkurl úr notuðum dekkjum verði ávallt leitast við að nota örugg efni. Einnig mætti útbúa almenn tilmæli þar sem hvatt er til þess að við uppsetningu á nýjum gervigrasvöllum verði leitast við að nota ekki endurunnin bíldekk. Verði það gert er mikilvægt að leitað verði eftir samvinnu við Íþróttasamband Íslands og Knattspyrnusamband Íslands til að farið verði eftir þessum tilmælum. (Forseti hringir.)

Sjötta spurningin: Mun ráðherra beita sér fyrir því að notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum verði alfarið bönnuð?

Svarið er: Mikilvægt er …(Forseti hringir.) — Nú hringir forseti og mun ég svara síðustu spurningunni í seinni ræðu minni.