145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

349. mál
[16:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Eins og kom fram í svari ráðherra þá er innflutningur á gúmmíkurli úr gömlum bíldekkjum ekki óheimill. Það þarf kannski að nálgast það verkefni hvers vegna verið er að flytja inn gúmmíkurl úr notuðum bíldekkjum, til hvers það er almennt notað og hvort ástæða sé til að banna þann innflutning eða koma í veg fyrir hann ef hann er nýttur þar sem fólk er á ferli eða getur borið skaða af.

Ég held að nauðsynlegt sé í þessum efnum að fara vel yfir málið og bíða eftir rannsóknum. Það vita allir að gervigrasvellir eru sýkingarbæli hvernig svo sem á þá er litið vegna þess að þar er notað steindautt efni og allt situr kyrrt. Það þarf að skoða fleira en eingöngu gúmmíkurlið þegar kemur að gervigrasvöllum og því sýkingarbæli sem ég í það minnsta, virðulegur forseti, tel að þeir séu.