145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

349. mál
[16:51]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er fróðleg og að því ég best veit og skil nauðsynleg. Það veit sá sem allt veit að ég veit ekkert um fótboltavelli, hvorki gervigrasvelli né aðra. En af fréttum að dæma er það að minnsta kosti fyrir leikmenn í hæsta máta alvarlegt ef verið er að nota hættuleg efni á íþróttaleikvanga, hvort sem er fyrir börn eða fullorðna, en þó sérstaklega fyrir börn.

Ég velti því hins vegar fyrir mér og ég vísa nú bara aftur í það sem ég sagði um vitneskju mína almennt um málið, hvort það geti verið að hér sé einhvers konar arfleifð endurvinnslunnar að koma í ljós. Er verið að nota endurunnin dekk á íþróttaleikvanga án þess að hafa umhverfissjónarmið að leiðarljósi, án þess að menn hafi leitt hugann að hliðarverkunum sem kunna að vera fyrir hendi? Það er auðvitað mjög brýnt að menn horfi á alla þætti málsins í (Forseti hringir.) umhverfisverndinni, ef það er rétt hjá mér að hér sé verið að endurvinna og endurnýta gömul dekk.