145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[16:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við erum komin að 3. umr. um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem verið er að leggja til breytingu á ýmsum lögum. Líkt og ég sagði við 1. umr. málsins þá er ég vissulega mjög glöð yfir því að verið sé að leggja til ýmsar breytingar sem eru auðvitað nauðsynlegar til þess að hægt verði að fullgilda samninginn. En eins og við vitum öll þá snýst þetta aðallega um að breyta hugtakinu fatlaður í ýmsum myndum þess orðs yfir í að tala alls staðar í lögum um fatlað fólk. Það er hið besta mál.

Ég sagði við 1. umr. að mér fyndist svolítið dapurlegt að ekki væri verið að leggja til neinar efnislegar breytingar á lögum, t.d. breytingar á því hvernig hugtakið sjálft, fötlun, er skilgreint í lögunum. Það er vitanlega eitthvað sem hlýtur að verða gert í framhaldinu.

Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs núna við 3. umr. er sú að mig langar aðeins að ræða inntakið í sáttmálanum í tengslum við þessa breytingu. Líkt og ég sagði áðan er hið besta mál að verið sé að breyta orðalagi því að orðalag skiptir máli. Það skiptir máli hvernig við tölum um fólk. Það skiptir ekki bara máli hvernig við tölum um fatlað fólk, heldur skiptir líka máli umhverfið sem við sem samfélag búum fötluðu fólki. Þess vegna langar mig að minna á að í 28. gr. í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um viðunandi lífskjör og félagslega vernd. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.“

Þetta er meðal annars inntakið í þessum samningi.

Eins og við vitum öll styttist í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2016, en í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 9,4% hækkun á bótum elli- og örorkulífeyrisþega. Hæstv. fjármálaráðherra sagði það reyndar hér áðan í óundirbúnum fyrirspurnatíma að prósentuhækkunin mundi verða 9,7%. Það er auðvitað ágætt að prósentan sé aðeins að togast upp á við, en það breytir hins vegar ekki stóru myndinni því að þessi prósenta leggst ofan á gríðarlega lágar greiðslur til örorkulífeyrisþega. Ráðstöfunartekjur öryrkja og fatlaðs fólks hækka því ekki nema um 11–13 þús. kr. á mánuði eftir skatta. Öryrkjabandalag Íslands hefur sent öllum þingmönnum bréf þar sem vakin er athygli á þessu og því að börn lífeyrisþega búa núna við skort og hafa ekki sömu tækifæri til jafns við önnur börn í íslensku samfélagi vegna þeirra bágu kjara sem foreldrum þeirra er úthlutað.

Mér finnst þetta skipta máli því að við sem löggjafarvald verðum að gera betur en svo að fara bara í orðalagsbreytingar eins og hér er verið að gera. Við verðum líka að hugsa um þær aðstæður sem við erum að skapa fólki.

Í bréfinu sem allir hv. þingmenn fengu frá Öryrkjabandalaginu er líka smáklausa um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og athygli okkar vakin á því að í fjárlagafrumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni í áframhaldandi vinnu við undirbúning á fullgildingu samningsins. Það hlýtur að skipta máli til framtíðar því að með frumvarpinu sem nú er til 3. umr. er bara verið að stíga eitt pínulítið hænuskref þar sem við erum að breyta orðalagi. Öll stóra vinnan er eftir. Því miður sér þess ekki stað í fjárlagafrumvarpinu að gert sé ráð fyrir fjármagni í þá vinnu.

Öryrkjabandalagið kemur hreinlega með tillögu þar sem lagt er til að þrjú stöðugildi sérfræðinga hjá innanríkisráðuneytinu verði fjármögnuð til þess að innleiða samninginn á næstu þremur árum. Lagt er til að í það fari um 35 milljónir á ári. Nú skal ég ekki segja til um hvort upphæðin sem hér er nefnd sé endilega sú eina rétta en ég vil hins vegar taka undir það með Öryrkjabandalaginu að það verða að fara peningar í þetta til þess að það verði í rauninni eitthvað á bak við stóru orðin um að við ætlum að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þessi samningur er svo miklu meira en bara einhver orð á blaði. Þessi samningur felur í rauninni í sér algjöra hugarfarsbreytingu um það hvernig við sem samfélag komum fram við fatlað fólk og hvernig við mótum samfélag þar sem fatlað fólk getur tekið þátt til jafns við aðra.

Þar með hef ég komið því að sem mér finnst gríðarlega mikilvægt að segja við 3. umr. Mér finnst hið besta mál að við samþykkjum þetta frumvarp, en það nær alveg óskaplega skammt. Við verðum því annars vegar að tryggja fjármuni til þess að hægt verði að vinna að fullgildingu á sáttmálanum og hins vegar verðum við að setja aukið fjármagn í greiðslur til lífeyrisþega til þess að þeir geti lifað með reisn í samfélaginu líkt og 28. gr. samningsins kveður á um.