145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[17:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp fyrir hönd nefndarinnar og þakka þeim þingmönnum sem hafa komið hingað til að fjalla um þetta mál. Í nefndaráliti okkar bendum við á að þetta frumvarp er hluti af þeim lagaúrbótum sem þarf að ráðast í til að Ísland geti fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks líkt og Alþingi hefur þegar ákveðið að gera. Við í nefndinni erum sammála um að árétta mikilvægi þess að þeirri vinnu verði hraðað eins og kostur er, þ.e. að vinnu við nauðsynlegar úrbætur verði hraðað eins og kostur er.

Það kom fram í umsögn Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum, sem kom til okkar í nefndinni við umfjöllun þessa máls, að ágallar væru á núverandi þýðingu samningsins, þannig að það er alveg ljóst að það þarf að skoða áður en lengra verður haldið. Þetta tekur allt saman tíma. Ég veit að við erum öll mjög óþolinmóð og langar að gera betur og langar að gera betur hratt, en ég hvet menn samt til að samþykkja þetta mál, það er að sjálfsögðu liður í því að við getum haldið áfram.